Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, bendir á að stjórnvöld leggi miklar kvaðir á innlend fjármálafyrirtæki sem erlendir keppinautar þurfi ekki að standa undir. Þessar sértæku álögur, ásamt stærðarhagkvæmni erlendra fjármálafyrirtækja, geri íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir í samkeppni.
„Í fyrstu mætti ætla að helstu keppinautar okkar væru þau félög sem starfa hér á landi undir sömu reglum, en það er ekki rétt. Samkeppnin kemur í raun ekki síður frá alþjóðlegum aðilum,“ segir Jón og nefnir að samkvæmt gögnum Seðlabankans séu 139 erlendir sjóðir með 1.464 sjóðsdeildir með starfsemi á Íslandi.
Jón telur að margir geri sér ekki grein fyrir umfangi þeirra viðbótargjalda sem íslensk fjármálafyrirtæki greiða.
„Það er sérstakur skattur á skuldir fjármálafyrirtækja, skattur á laun og viðbótartekjuskattur. Bara skattur á skuldir er 0,376% af skuldum umfram 50 milljarða króna og jafngildir 12-14% af vaxtamun bankanna þriggja,“ segir hann og bætir við að hærri eiginfjár- og lausafjárkröfur geri rekstrarumhverfið enn erfiðara.
Þetta, ásamt samkeppni frá stórum alþjóðlegum sjóðastýringarfélögum sem búa ekki við sömu kvaðir, veldur því að sameiningar eða aukið samstarf milli innlendra fjármálafyrirtækja gætu reynst nauðsynleg. „Ef ekki verða gerðar breytingar á þessu sértæka skattaumhverfi mun það þrýsta á um frekari sameiningar,“ segir Jón.
Viðtalið í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum.