Staða sjávarútvegsins, uppgjör Brims og loðnuveiðar voru til umræðu í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna. Gestur þáttarins var Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims. Þátturinn er sýndur á mbl.is.
Afkoma Brims var undir væntingum í fyrra. Spurður út í hvað hafi helst valdið því segir Guðmundur að loðnubresturinn sé langstærsti hlutinn af því.
„Verð á sjófrystum fiski var líka lágt í upphafi árs en það lagaðist á seinni hluta ársins. Ufsaveiðin gekk heldur ekki nógu vel en loðnubresturinn var langstærsti hlutinn,“ segir Guðmundur.
Hann segir að loðnukvótinn í ár sé mikil vonbrigði.
„Fyrir nokkrum árum töldum við að loðnustofninn væri að ná sér aftur á strik. Það er erfitt að mæla loðnuna á veturna. Ég hef sett spurningarmerki við hvernig við nýtum loðnuheimildirnar. Ég set spurningarmerki við að mælingarnar séu á haustin,“ segir Guðmundur.
Hann bætir við að það þurfi einnig að rannsaka hvalinn.
„Hnúfubaknum hefur fjölgað gríðarlega og við rannsökum það ekkert,“ bætir hann við.
Guðmundur hefur gagnrýnt að stjórnvöld reiði sig nær eingöngu á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og sagt að samtal við greinina skorti.
„Það hefur orðið svo mikil gjá á milli stjórnsýslunnar, þingsins og svo aftur okkar sem störfum í greininni. Og þegar síðasti vinstri ráðherra kom í ríkisstjórn þá hlustaði hann ekki á okkur, vildi ekki taka samtal. Svo átti bara að koma ný stefna og þetta er náttúrulega ekki hægt, enda er árangurinn enginn,“ segir Guðmundur.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: