Mikill titringur og lækkanir urðu á hlutabréfamörkuðum um allan heim í dag, sérstaklega á Wall Street í Bandaríkjunum, eftir að Trump Bandaríkjaforseti hóf nýja atlögu í viðskiptastríði sínu. Verð á gulli náði aftur á móti nýjum hæðum.
Fjárfestar höfðu auk þess áhyggjur af mögulegri lokun opinberra stofnana um helgina. Þá var það ekki til að bæta stemninguna hve áhugi Vladimírs Pútín Rússlandsforseta við mögulegt samkomulag um vopnahlé væri takmarkaður, að því er fram kemur í umfjöllun AFP.
Í dag hótaði Trump að leggja 200 prósenta tolla á vín, kampavín og aðrar áfengar vörur frá Frakklandi og öðrum löndum Evrópusambandsins (ESB). Þetta var svar forsetans við áformaða tolla ESB á bandarískt viskí, sem er hluti af viðbragði ESB vegna tolla Bandaríkjanna á innflutning á stáli og áli.
Axel Rudolph, greinandi hjá IG sem sérhæfir sig í viðskiptum á netinu, segir að hótun Trumps um 200% toll hafi leitt til þess að fjárfestar hófu að losa sig við bréf með fyrrgreindum afleiðingum.
Trump hefur hafið viðskiptastríð gegn bæði keppinautum og bandamönnum frá því hann tók við embætti í janúar og hann hefur beitt tollum sem tæki til að þrýsta á lönd varðandi viðskipti og önnur stefnumál.