Forvitnin réði för

Jón Finnbogason framkvæmdastjóri Stefnis.
Jón Finnbogason framkvæmdastjóri Stefnis. mbl.is/Eyþór

Jón Finnbogason framkvæmdastjóri Stefnis hefur starfað í fjármálageiranum í yfir tvo áratugi og býr að víðtækri reynslu af sjóðastýringu, bankaþjónustu og rekstri fjármálafyrirtækja. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hóf feril sinn sem verðbréfamiðlari en hefur síðan þá gegnt ýmsum stjórnunarstöðum, meðal annars hjá Kaupþingi, Byr sparisjóði og Arion banka. Árið 2022 tók hann við sem framkvæmdastjóri Stefnis hf., eins stærsta sjóðastýringarfélags landsins.

Jón segir að það hafi verið forvitnin sem leiddi hann inn í fjármálageirann. Á síðustu önninni í laganámi starfaði hann við fasteignasölu og fékk þar innsýn í markaðinn. „Ég seldi hundruð íbúða en fann fljótlega að mér fannst áhugaverðara að skilja hvernig þær voru fjármagnaðar en að selja þær,“ segir hann.

Þegar fjármálafyrirtæki auglýsti eftir verðbréfamiðlara til að selja veðskuldabréf til lífeyrissjóða ákvað hann að sækja um.

„Þetta var beintengt við fasteignamarkaðinn, svo að ég ákvað að slá til,“ útskýrir hann. Starfið fól í sér að selja veðskuldabréf, en með hverjum samningi varð hann forvitnari um hvernig hægt væri að fjármagna stærri útgáfur af slíkum bréfum.

Á þessum tíma var verðbréfamarkaðurinn að vaxa hratt í Bandaríkjunum og Jón sökkti sér í sjálfsnám um efnið. „Ég keypti margar bækur um verðbréfun (e. securitization) og fór að kynna mér hvernig þessi heimur virkaði,“ segir hann.

Einn af viðskiptavinum hans var lífeyrissjóður sem var í stýringu hjá Kaupþingi. Þar tók einn yfirmaður þar eftir því að Jón hafði mikinn áhuga á fjármálum og bauð honum starf í eigin viðskiptum hjá Kaupþingi.

„Þá var ég búinn að kynna mér skuldabréfamarkaðinn vel og byrjaði að eiga viðskipti með ríkisskuldabréf í eigin viðskiptum Kaupþings,“ segir Jón. Hann segir að lögfræðimenntunin hafi komið sér vel í því starfi. „Það var gagnlegt að geta útskýrt flókin hugtök á mannamáli.”

Eftir að hafa unnið í eigin viðskiptum hjá Kaupþingi fór Jón að horfa til nýrra tækifæra innan verðbréfamarkaðarins. „Ég sagði við yfirmann minn að samstarfsfélagi minn væri betri en ég á ríkisskuldabréfamarkaði og einbeitti mér frekar að því að byggja upp nýjar lausnir,“ útskýrir hann. Með því að nýta tengslin við lífeyrissjóði þróuðu þeir nýtt fyrirkomulag þar sem óskráð skuldabréf voru keypt af lífeyrissjóðum og skráð í Kauphöll.

„Það var jákvætt skref í átt að þróaðri skuldabréfamarkaði,“ segir hann.

Spurður hver hafi verið mesta áskorunin á ferlinum segir Jón að fyrstu árin eftir hrun hafi verið erfið. Á þeim tíma starfaði hann sem sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs.

„Að glíma við fjárhagslega endurskipulagningu hjá Byr sparisjóði á árunum 2009 til 2010 var krefjandi. Verkefnið held ég að hafi reynt mjög á alla þá fjölmörgu starfsmenn sem komu að þeirri vinnu. Samningaviðræður við erlenda lánveitendur reyndu á. Sparisjóðurinn byggði hins vegar á góðum grunni með mikinn fjölda viðskiptavina sem báru mikið traust til sparisjóðsins og starfsfólks hans. Viðskiptasambönd sem byggðu á áratuga sögu. Það var á þeim grunni sem það tókst að ljúka söluferli með sameiningu við Íslandsbanka, sem ég held að hafi verið mjög farsæl lausn fyrir alla sem að því komu,“ segir Jón.

Skuldabréfamarkaðurinn áhugaverðari

Jón segir að honum hafi alltaf þótt skuldabréfamarkaðurinn áhugaverðari en hlutabréfamarkaðurinn. Hann útskýrir að það sé vegna þess að hann sé flóknari og snerti fleiri kima samfélagsins.

Spurður hver hann telji að þróunin verði á skuldabréfum á árinu svarar Jón að hann telji aðstæður á næstu misserum verða hagstæðar.

„Seðlabanki Íslands hefur nú lækkað stýrivexti um samtals 1,25% á síðustu 3 fundum, en frá því að stýrivextir byrjuðu að lækka hefur ávöxtunarkrafan á lengri ríkisskuldabréfum hækkað um 0,4%. Það bendir til þess að markaðsaðilar hafi búist við enn hraðari lækkun vaxta en raun ber vitni. Hins vegar teljum við hjá Stefni að aðstæður á skuldabréfamarkaði séu hagstæðar nú þegar vaxtalækkunarferli Seðlabankans er komið vel af stað og ávöxtunarkröfur á skuldabréfamarkaði eru enn á álitlegum gildum,“ segir Jón.

Viðtalið í heild má lesa í ViðskiptaMogganum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK