Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% á milli mánaða í mars en ársverðbólga lækki úr 4,2% í 3,9%. Þetta kemur fram í greiningu bankans, Hagsjá, sem Landsbankinn gaf út í gær.
Í greiningunni er gert ráð fyrir að janúarútsölur á fötum og skóm klárist í mars og að sá liður hafi mest áhrif á hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Gert er ráð fyrir að reiknuð húsaleiga þróist með svipuðum hætti og síðustu mánuði og spáir bankinn 0,5% hækkun í mars. Í mars í fyrra hækkaði reiknuð húsaleiga mikið, eða um 2,1%, og gangi spá bankans eftir hefur sá liður mest áhrif til lækkunar á ársverðbólgu.
Í greiningunni er búist við að verðbólga verði stöðug í kringum 4% næstu mánuði. Þar er sérstaklega tilgreint að komið sé að kaflaskilum í baráttunni við verðbólguna og að það hægi á hjöðnun hennar.
Bankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,54% í mars, 0,74% í apríl, 0,32% í maí og 0,49% í júní. Gangi spáin eftir verður verðbólga nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði og mælist 3,9% í mars, 4,1% í apríl og 3,9% í bæði maí og júní.
Morgunblaðið leitaði til Unu Jónsdóttur aðalhagfræðings Landsbankans sem nefndi:
„Við höfum náð mjög góðum árangri í því að ná verðbólgu niður síðustu tvö ár, en núna virðist fátt í kortunum benda til þess að hún gangi áfram niður með sama hraða næstu mánuði. Við höfum notið góðs af því undanfarið að stórir hækkunarmánuðir hafa dottið út úr 12 mánaða mælingum en nú eru fáir slíkir mánuðir eftir. Þar að auki gæti þrýstingur komið frá vinnumarkaðnum í kjölfar nýundirritaðra kjarasamninga og svo hefur óvissa á hinu alþjóðlegu sviði aukist vegna mögulegra tolla og áhrif þeirra á vöruverð. Þessu til viðbótar má nefna að ekki hefur tekist að ná verðbólguvæntingum niður, sem gæti gert það að verkum að verðbólga verði tregbreytanleg næstu mánuði.“