Vaxtamunur á Íslandi er stórlega ofmetinn og rangtúlkaður í opinberri umræðu að því er fram kemur í nýju verðmati ráðgjafarfyrirtækisins Jakobsson Capital á Arion banka.
Þar segir að iðulega gleymist að taka tillit til vaxtamunar af eigin fé. „Gróflega hefur vaxtamunur af meðalstöðu eigna verið um 3% í bankakerfinu síðustu ár og farið hækkandi. Það er mikil einföldun á raunveruleikanum og hefur Jakobsson Capital ávallt reiknað virkan vaxtamun í kjölfar ársuppgjörs bankanna og birt í Viðaukum. Virkur vaxtamunur hefur verið um 2% í íslenska bankakerfinu á síðustu árum. Hins vegar er íslenska bankakerfið fjármagnað um 12 til 15% á eigin fé. Eigið fé ber engan fjármagnskostnað og hefur vaxtamunur á eigið fé verið um 8 til 9% þegar vaxtastig var í hámarki. Ljóst er að vaxtamunur á eigið fé mun lækka hratt á næstunni og ekki ólíklegt að vaxtamunur á eigið fé fari í 6% á næstu 12 til 18 mánuðum,“ segir í verðmatinu.
Þar segir einnig að það liggi því í hlutarins eðli að vaxtamunur á meðalstöðu eigna á Íslandi sé allt að 50% hærri en í nágrannalöndunum.
Eiginlegt eigið fé í norræna bankakerfinu var til samanburðar 5,6% árið 2023 eins og segir í verðmatinu.
Einnig segir Jakobsson Capital að ef hagnaður er ekki nýttur til útgreiðslu arðs eða uppkaupa hlutafjár, hækki vaxtamunur á hverju ári. „Vaxtamunur hækkar þangað til hann nálgast vaxtamun eigin fjár. Það kemur ekki á óvart að stjórnendur Arion banka hafa kappkostað að lækka eiginfjárbindingu og eiginlegt eiginfjárhlutfall á síðustu árum.“
Í greiningunni er hver hlutur í Arion banka metinn á 204 krónur en lokagengi bankans í viðskiptum í gær var 151 sem er um 35% munur. „Þessi munur er umtalsverður en ekki verulegur,“ segir Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital, aðspurður í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir ástæðu hins 35% munar vera óvissu í hagkerfinu og hátt vaxtastig. Því haldi menn að sér höndum í hlutabréfaviðskiptum. „Þetta ástand hefur áhrif á fyrirtæki eins og banka.“
Eins og fram kemur í verðmatinu er bankaskattur á Íslandi með því hæsta sem þekkist í Evrópu og er hann þríþættur: Sértækur bankaskattur, sérstakur fjársýsluskattur af hagnaði og sérstakur fjársýsluskattur á laun.
Í verðmatinu er rætt um ábatann af þessum sköttum en á móti 7,9 ma.kr. ávinningi er samkvæmt greiningunni óbeint tap vegna minni fjárfestingar og lægri hagvaxtar. „Óbeint tap ríkisins getur numið margfaldri skattlagningu upp á 16,1 ma.kr. Óbeint tap fer eftir innlendri samkeppni á bankamarkaði. Ef samkeppnin væri fullkomin kæmu lægri skattar að fullu fram í lægra vaxtastigi og tap ríkisins væri mest í þessu tilfelli. Fjárfesting væri mun meiri t.d. í íbúðarhúsnæði og atvinnurekstri og hagvöxtur hærri,” segir í greiningunni.
Í verðmatinu er fjallað um árangur tryggingafélagsins Varðar sem er í eigu Arion banka. Þar segir að mjög góður gangur hafi verið á síðasta ári. „Vörður var á töluverðri siglingu seinni hluta árs 2024. Töluverð stærðarhagkvæmni er í tryggingarekstri og jukust tekjur trygginga um 10,6%. Samsett hlutfall var 89,9% en það er mjög sjaldgæft á Íslandi að tryggingarfélög nái samsettu hlutfalli undir 90%.”
Jakobsson Capital hefur einnig gefið út nýtt verðmat á Íslandsbanka upp á 139 krónur á hlut. Lokagengi á markaði í gær var 124 krónur á hlut sem er um 12% munur.