Hagræðingarverkefni innan Icelandair munu skila yfir 70 milljóna dollara sparnaði á ársgrundvelli fyrir árslok 2025, eða um 10 milljörðum króna. Þetta kom fram í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, á aðalfundi félagsins.
Kom einnig fram í máli Boga að eftirspurn á markaðnum til Íslands hefði minnkað á fyrri hluta ársins 2024 vegna áhrifa af jarðhræringum á Reykjanesi og mikillar samkeppni við aðra áfangastaði, svo sem Noreg og Finnland. Félagið hefði hins vegar náð að nýta sveigjanleika leiðakerfisins og sett áherslu á markaðinn yfir hafið til að viðhalda hárri sætanýtingu, sem hefði haft jákvæð áhrif á einingatekjur. Félagið hóf umfangsmikla umbreytingarvegferð á fyrri helmingi ársins 2024 til að bæta afkomu, með áherslu á kostnaðarlækkun og auknar tekjur. Yfir 400 verkefni af öllum sviðum voru skilgreind og verða þau innleidd á næstu tveimur árum.
Bogi nefndi jafnframt í ræðu sinni að skattspor félagsins hefði numið 38 milljörðum króna á árinu 2024 og aukist um 16% frá fyrra ári. Félagið væri einn stærsti vinnuveitandi landsins með tæplega 4.000 starfsmenn að meðaltali á árinu 2024.
Heildarfjöldi flugvéla, að meðtalinni fraktstarfsemi og leiguflugsstarfsemi, verður 55 vélar á árinu 2025. Afkomuhorfur eru að mati Boga góðar fyrir árið og gert er ráð fyrir áframhaldandi bættum árangri í öllum einingum.
Í samtali við Morgunblaðið nefnir Bogi:
„Áherslan okkar núna er fyrst og fremst á að styrkja reksturinn og skila auknu virði til hluthafa. Í þeim tilgangi hófum við umfangsmikla umbreytingarvegferð á síðasta ári sem er þegar farin að skila árangri bæði hvað varðar kostnað og tekjur og er markmiðið að í lok þessa árs muni hún skila 70 milljónum dollara, eða um 10 milljörðum króna, í rekstrarbata á ársgrundvelli. Framtíðartækifæri Icelandair eru óþrjótandi og með hagkvæmari flota langdrægari flugvéla opnast nýir og spennandi markaðir sem munu efla Ísland sem ferðamannaland og tengimiðstöð í flugi. Ég er þess fullviss að skýrar áherslur okkar munu styrkja stöðu félagsins enn frekar, auka arðsemi og gera okkur kleift að nýta þau tækifæri sem blasa við.“