Vilja raula lögin á leiðinni inn

Stuð á tónleikum í Eldborg. James Cundall segir að þó …
Stuð á tónleikum í Eldborg. James Cundall segir að þó svo framboð afþreyingar hafi aldrei verið meira þá sæki neytendur enn í að sjá listviðburði á sviði. Upplifunin nær öðrum hæðum í stórum hópi fólks. Morgunblaðið/Einar Falur

Breski viðburðahaldarinn James Cundall hefur komið víða við á löngum ferli. Hann vann hjá virtu eignastýringarfélagi í Hong Kong á tíunda áratugnum þegar hann söðlaði um eftir að hafa komið auga á að í SA-Asíu væri vannýttur markaður fyrir vestræna söngleiki.

Fyrirtæki hans, Jamboree Entertainment, skipuleggur stóra jafnt sem smáa tónlistar-, söngleikja- og leiklistarviðburði um allan heim og hefur nýlega numið land á Íslandi. Félagið reið á vaðið í fyrra með Elvis-tónleikum söngvarans Emilio Santoro í Hörpu og síðar í þessum mánuði færir söngkonan Xenna íslenskum tónlistarunnendum perlur Taylor Swift í Eldborg. Í september mætir síðan sönghópur beint frá West End með Mania: The ABBA Tribute.

James Cundall
James Cundall

Annars konar upplifun

Það er gaman að reyna að skilja hvað greinir á milli feigs og ófeigs í afþreyingarbrasanum en þar er Cundall hafsjór fróðleiks. Hann segir velgengni á þessu sviði m.a. snúast um að hafa á að skipa rétta fólkinu, markaðssetja viðburði með skilvirkum hætti og hafa góðan aga á fjárhagslegu hliðinni. Svo þarf vitaskuld líka að bera gott skynbragð á hvað það er sem almenningur hefur áhuga á að heyra og sjá.

Þegar streymisveiturnar ruddu sér til rúms spáðu margir því að sviðslistirnar ættu ekki langt eftir ólifað og Cundall segir það rétt að afþreyingarframboðið hafi aldrei verið meira. Hins vegar virðist fólk enn þyrsta í að sjá listamenn flytja verk eða syngja lög á sviði. „Þetta er eitthvað sem hefur fylgt okkur allt frá árdögum mannkyns. Þegar forfeður okkar bjuggu í hellum skiptust þeir á sögum fyrir framan ættbálkinn og innst innra með okkur lifir enn þessi löngun að vera hluti af hópi áhorfenda sem í sameiningu nýtur flutnings á verki,“ segir hann. „Það er eitthvað alveg sérstakt sem leysist úr læðingi þegar fólk kemur saman í kringum viðburð, hvort sem um er að ræða knattspyrnuleik eða rokktónleika, og upplifunin virðist vaxa með veldisvexti eftir því sem fjölgar í hópnum.“

Breska söngkonan Xenna þykir hafa náð að fanga töfra Taylor …
Breska söngkonan Xenna þykir hafa náð að fanga töfra Taylor Swift nokkuð vel. Hún heldur tónleika í Hörpu síðar í mánuðinum. Ljósmynd/Jamboree Entertainment

Þarf að hafa slagkraft en má ekki vera of dýrt

Þrátt fyrir að viðburðir á sviði risti yfirleitt dýpra en að t.d. streyma tónlist í gegnum snjallsímann eða horfa á kvikmynd heima í stofu, þá segir Cundall að það þurfi að hafa töluvert fyrir því að ná athygli neytenda. „Ef sirkus eða farandleikhópur átti leið um bæinn fyrir hundrað árum, þá var það á allra vörum enda sáralítil afþreying í boði. Í dag eru sviðslistirnar aðeins einn valkostur af ótalmörgum og neytendur eru líka í þeirri stöðu að geta gert kröfu um að fá sem mesta afþreyingu fyrir hverja krónu,“ útskýrir hann. „Sviðslistunum er vandi á höndum því viðburðahaldarar þurfa t.d. að geta keppt við slagkraftinn í stórmyndum kvikmyndaveranna án þess að leyfa kostnaðinum við hverja sýningu að fara úr böndunum. Ég fór t.d. nýverið í góðum félagsskap á söngleik í London og bara aðgöngumiðinn kostaði 195 pund, sem er dágóð upphæð. Þegar ofan á það bætist ferðin til og frá sýningunni, og góður málsverður, þá reiknaðist mér til að þessi ánægjulega kvöldstund fyrir tvo hefði kostað um 1.100 pund, eða nærri 200.000 kr.“

Áhorfendur gjarnir á að velja það kunnuglega

Hörð samkeppni um athygli og krónur almennings þýðir m.a. að markaðsútgjöld vega þungt í kostnaðinum við að setja leikrit eða tónleika á svið, en reikningsdæmið getur verið breytilegt eftir því hvaða stjörnur koma að verkefninu. Cundall segist nota það sem þumalputtareglu að ganga út frá 60% miðasölu og verja 10-15% af tekjum í markaðsmál, en þegar aðalstjarnan hefur mikið aðdráttarafl má kannski komast upp með að ráðstafa bara 5% í markaðssetningu viðburðarins.

Cundall segir líka þurfa að aðlaga viðburðaframboðið að smekk áhorfenda og nefnir hann í því sambandi að vinsælir söngleikir, á borð við Vesalingana, séu næstum því of langir fyrir nútímamanninn. „Fólk er orðið vant því að innbyrða afþreyingu í smáum skömmtum og að hlusta á söngleik í þrjár klukkustundir er hreinlega of mikið fyrir suma. Hækkandi miðaverð þýðir líka að fólk virðist síður reiðbúið að veðja á eitthvað nýtt og sæki frekar í það kunnuglega og margreynda: hér áður fyrr var sagt að einkennismerki góðs söngleiks væri að fólk gengi úr salnum raulandi lögin sem það hafði heyrt, en í dag þarf fólk að ganga inn í salinn raulandi þau lög sem það reiknar með að heyra.“

Tribute-böndin ekkert slor

Cundall segist hafa fallið fyrir Íslandi þegar hann heimsótti landið í fyrsta sinn. Þegar hann sá Hörpu rak hann í rogastans og fór að hugsa hvað mætti setja þar á svið, og hvers konar viðburður gæti gengið upp fjárhagslega í landi með innan við 400.000 íbúa. Úr varð að skipuleggja tónleikaröð framúrskarandi „tribute“-tónlistarmanna og virkja vinsældir Elvis, Taylor Swift og Abba.

Spurður hvort tribute-böndin geti komist í hálfkvisti við listamennina sem þau eru tileinkuð segir Cundall að flutningurinn sé jafngóður ef ekki betri. „Ef við tökum sem dæmi Abba Mania þá hefur sá sönguhópur líklega flutt bestu lög Abba þúsundum skipta oftar en meðlimir sænsku hljómsveitarinnar og sú tækni sem við höfum yfir að ráða í dag leyfir okkur að skapa enn kröftugri upplifun úr tónlistarflutningnum.“

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn 17. mars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK