Ísland númer sex í framfaravísitölu

Ísland er í sjötta sæti af 170 þjóðum í árlegri mælingu Social Progress Imperative, SPI (AlTi Global Social Progress Index), á vísitölu félagslegra framfara.

Í sætum eitt til fimm eru Noregur, Danmörk, Finnland, Svíþjóð og Sviss.

„Heilt yfir komum við ágætlega út og getum verið stolt af niðurstöðunni,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir fulltrúi SPI á Íslandi í samtali við Morgunblaðið. „Við höfum alltaf verið á topp tíu. Við dettum niður um tvö sæti milli ára, en það er bara af því að tveimur löndum gekk betur en á árinu á undan. Það var ekki af því að okkur hafi gengið verr.“

Rósbjörg Jónsdóttir fulltrúi SPI á Íslandi segir þjóðina geta verið …
Rósbjörg Jónsdóttir fulltrúi SPI á Íslandi segir þjóðina geta verið stolta af niðurstöðunni. Morgunblaðið/Karitas

Ísland hefur fjórtán sinnum verið með í mælingum SPI eða frá upphafi mælinga.

Michael Green forstjóri SPI og Matthew Bishop hjá breska tímaritinu The Economist áttu frumkvæði að vísitölunni eftir efnahagskreppuna 2008.

Prófessorarnir Michael E. Porter hjá Harvard Business School og Scott Stern hjá MIT komu til liðs við þá 2011.

Mynd af lífsgæðum

Hugmyndin var að gefa mynd af raunverulegum lífsgæðum í löndum heimsins, óháð efnahagslegum mælikvörðum eins og vergri landsframleiðslu.

Rósbjörg segir mikilvægt að átta sig á að verið sé að bera þjóðir saman með hliðsjón af mælikvarðanum „tekjur á mann“. Þannig sé tryggt að samanburðurinn sé raunhæfur. „Niðurstaðan segir til um hvernig okkur hefur tekist upp við að byggja upp gott samfélag út frá félagslegum og umhverfislegum mælikvörðum.“

Rósbjörg segir að aðgangur að hagstæðu húsnæði vegi þungt inn í íslensku niðurstöðuna í ár.

Aðspurð segir hún að vísitalan sé unnin úr þeim gögnum sem Ísland láti alþjóðastofnunum í té ár hvert.

Spurð hvernig vísitalan nýtist og hvort yfirvöld hafi hana til hliðsjónar í sinni vinnu segist Rósbjörg vona að svo sé og að stjórnvöld ættu að hafa hana til hliðsjónar, því mælingin sé hlutlaus. „Ýmsar þjóðir nýta vísitöluna í margvíslegum tilgangi, til dæmis við stefnumótun. Ég myndi gjarnan vilja sjá íslensk stjórnvöld nýta mælingarnar betur því þær endurspegla raunverulegar niðurstöður, ekki það sem lagt er til. Ég vil ítreka að okkur hefur tekist rosalega vel að byggja upp öflugt velferðarsamfélag en það þarf að standa vörð um það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK