Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp þess efnis að jafnlaunavottun sem mörgum fyrirtækjum er skylt að innleiða í starfsemi sína verði valkvæð.
„Það hefur verið sýnt fram á að enginn ávinningur er af þessu ferli en mikill kostnaður fylgir því. Fjölmörg fyrirtæki hafa til að mynda þurft að ráða inn starfsmann vegna þessa og dæmi eru um að fólk fái neitun um launahækkun og vísað sé til þess að ekki sé hægt að hækka laun sökum vottunarinnar,“ segir Diljá.
Samtök atvinnulífsins framkvæmdu í annað sinn könnun meðal aðildarfélaga sinna sl. haust um reynslu þeirra af jafnlaunavottun, þar sem meðal annars var spurt um beinan kostnað þeirra við ferlið. Innleiðing jafnlaunavottunar kostaði að meðaltali 7,6 milljónir, jafnlaunastaðfesting kostaði 2,7 milljónir og endurnýjun jafnlaunavottunar kostaði 2,1 milljón.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé misjafnt hvernig sá kostnaður skiptist, en helstu kostnaðarliðir eru aðkeypt ráðgjöf og þjónusta, nýr hugbúnaður, samningur við vottunaraðila og tími eigin starfsfólks. Hjá mörgum fyrirtækjum er kostnaður við tíma starfsfólks stærsti kostnaðarliðurinn en jafnframt getur verið erfitt að meta hann með jafn nákvæmum hætti og aðra liði.
„Mikillar neikvæðni gætti gagnvart ferlinu í opnum svörum atvinnurekenda þar sem yfirgnæfandi meirihluti svarenda veitti afgerandi neikvæða endurgjöf. Þar kom helst fram að ferlið væri kostnaðarsamt, framkvæmdin væri erfið og tímafrek, þjónaði ekki tilgangi miðað við eðli fyrirtækjanna, samræmdist illa framkvæmd kjarasamninga, úttektir væru of tíðar, erfitt væri að umbuna framúrskarandi starfsfólki óháð kyni og að vottunin ætti að vera valkvæð,“ segir Anna Hrefna en bætir við að þó hafi einhverjir verið jákvæðir gagnvart ferlinu og talið staðalinn geta hjálpað fyrirtækjum að auka formfestu í launaákvörðunum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu.