Lára Hilmarsdóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Reita.
Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.
Lára var áður samskiptastjóri Controlant og starfaði þar áður við samskipti hjá Marel.
Hjá Reitum mun hún sinna samskipta- og markaðsmálum auk fjárfestatengsla og vinna náið með samstarfsaðilum innan og utan félagsins við fjölbreytt verkefni.
Lára er með B.Sc.-gráðu í fjölmiðla- og samskiptafræði frá Erasmus University í Hollandi og M.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Rotterdam School of Management.
Hún hefur bæði starfað við blaðamennsku á Morgunblaðinu og hjá Wall Street Journal.
„Árið fer af stað af krafti hjá Reitum í takt við metnaðarfulla vaxtarstefnu félagsins þar sem aukin áhersla er lögð á vaxtarhraða, fjölgun í nýjum eignaflokkum, og þróunarverkefni. Öflugur starfsmannahópur þar sem þekking, reynsla og fagmennska er í forgrunni er lykilatriði í velgengni félagsins. Það er ánægjulegt að fá Láru til liðs við okkur og styrkja enn frekar samskipti við fjölbreyttan hóp samstarfs- og hagaðila félagsins á þeim spennandi tímum sem fram undan eru,“ er haft eftir Guðna Aðalsteinssyni, forstjóra Reita.