Geymslustaður fyrir fjárheimildir

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur sagt rekstur ríkisins verri en hún …
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur sagt rekstur ríkisins verri en hún hafi áður talið. Morgunblaðið/Karítas

Það vakti athygli ViðskiptaMoggans þegar Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að hann hefði lagt fram minnisblað og sent bréf til fjármálaráðherra vegna slæms ástands vega á Vesturlandi. Hann kvaðst hafa átt fund með Vegagerðinni vegna málsins og mögulega yrði hægt að veita fjárauka úr svokölluðum varasjóði ríkissjóðs.

Það er engin nýlunda þegar fjármuni skortir í einstaka málaflokka að ráðherrar lýsi því yfir að þeir seilist í umræddan varasjóð.

Staðreyndin er hins vegar sú að sjóðurinn er einungis reiknuð stærð en ekki eiginlegur sjóður.

Varasjóður ríkissjóðs byggist á lögum um opinber fjármál, en sjóðnum er ætlað að bregðast við tímabundnum og ófyrirsjáanlegum útgjöldum ríkissjóðs sem ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti. Varasjóðurinn skal nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga og fjárveitingar fyrir hvern málaflokk skulu að hámarki nema 2% af fjárheimildum til málaflokksins. Stærð sjóðsins miðast því við fjárlög hvers árs.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024 kemur fram að alls var ráðstafað úr varasjóðnum 45,6 milljörðum. Mestu var ráðstafað í vinnslu fjáraukalaga, um 21 milljarði. Um 20 milljarðar fóru í áætlaðan kostnað vegna kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði. Þar á eftir komu ráðstafanir vegna jarðhræringa á Reykjanesi, eða 18,5 milljarðar. Ráðstöfun vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd tók til sín 3,6 milljarða aukalega.

Villandi hugtakanotkun er mögulega það sem helst flækist fyrir aðilum því þessum varasjóði er ætlað að bregðast við ófyrirséðum útgjöldum án þess að raska útgjaldaramma fjárlaga eins og það er orðað í greinargerð við lögin. Varasjóðurinn er því nokkurs konar geymslustaður fyrir fjárheimildir sem hægt er að grípa til eftir aðstæðum en ekki eiginlegur sjóður.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK