Lífeyrissjóðirnir stýra ferðinni

Lífeyrissjóðirnir virðast hafa spilað leikinn vel, haldið að sér höndum.
Lífeyrissjóðirnir virðast hafa spilað leikinn vel, haldið að sér höndum. Ljósmynd/Skjáskot af heimasíðu Íbúðalánasjóðs

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Í ljósi frétta af mögulegu samkomulagi um uppgjör HFF-bréfa vegna slita ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs) hafa komið fram ýmis sjónarmið og ekki virðast allir á eitt sáttir.

ViðskiptaMogginn hefur rætt við ýmsa markaðsaðila vegna málsins og flestir eru sammála að nauðsynlegt sé að öflugri umræða sé um uppgjörið innan stjórnmálanna. Hvað gerðist, af hverju og hver ber ábyrgð á þessum skelfilega skuldabagga sem leggst nú af þunga á skattgreiðendur.

Áður var lagt fram að setja sjóðinn einfaldlega í þrot. Deilur milli aðila hafa hins vegar kristallast í kringum hvort ábyrgð ríkisins á HFF-bréfum tæki eingöngu til uppreiknaðs nafnverðs með áföllnum vöxtum og verðbótum á þeim tíma sem ÍL-sjóður yrði settur í þrot eða hvort ríkið bæri ábyrgð á öllum framtíðargreiðslum skuldabréfanna.

Þegar fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, lagði fram tillögu að uppgjöri fyrir rúmum tveimur árum var uppreiknað nafnverð bréfanna um 600 milljarðar króna en markaðsverð nærri 800 milljarðar króna. Í tillögum Bjarna var ekki gert ráð fyrir að miða við markaðsverð eða framtíðargreiðslur heldur einungis uppreiknað nafnverð.

Færa má rök fyrir því að það hefði verið hagstæðara fyrir ríkissjóð, þar með skattgreiðendur, að gera þetta upp þegar vextir voru lágir og eins og lagt var til áður. Að því gefnu að sjálfsögðu að ríkissjóður hafi á þeim tíma getað endurfjármagnað sig á markaðsvöxtum.

Markaðsbrestur sem orðið hafi á HFF-bréfunum og hækkun verðtryggra vaxta um nálægt 3% frá árinu 2022 hafi hins vegar gjörbreytt stöðunni. Lífeyrissjóðirnir virðast því hafa spilað leikinn vel, haldið að sér höndum og á ákveðinn hátt leyft verðtryggðum vöxtum að hækka enda stýra þeir í raun eftirspurn á vaxtamarkaði, sérstaklega eftir löngum verðtryggðum vöxtum.

Afleiðingin er sú að bilið á milli markaðsverðs og uppreiknaðs nafnverðs HFF-bréfanna hefur minnkað og er nú lagt til að sjóðirnir fái ný ríkisskuldabréf á 3,5% verðtryggðum vöxtum. Hefði verkefnið verið klárað fyrir tveimur árum voru engin ríkisbréf í boði á svo hagstæðum kjörum.

Það virðist blasa við að aðgerðir, eða mögulega aðgerðaleysi, sjóðanna hafi stuðlað að hækkun verðtryggðra vaxta og skattgreiðendur þurfi nú að bera þyngri byrðar. Myndin flækist reyndar aðeins því skattgreiðendur eru margir á sama tíma með hagsmuni í lífeyrissjóðskerfinu og því beggja vegna borðsins.

Birta lífeyrissjóður virðist vera leiðtoginn í hópnum ásamt 3-4 öðrum sjóðum. Hinir lífeyrissjóðirnir hafi lítið lagt til og einfaldlega fengið far með lestinni. Ráðamenn þurfa hins vegar að útskýra betur fyrir skattgreiðendum hvaða reikningur þetta sé raunverulega sem er að detta inn um lúguna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK