Samkvæmt tilkynningu hafa Penninn húsgögn og hönnunarfyrirtækið Fólk Reykjavík undirritað samstarfssamning um sölu og kynningu á vörum Fólks á Íslandi.
Samstarfið setur íslenska húsgagnahönnun í forgrunn og hefur að markmiði að auka vöruþróun og vöruframboð á íslenskri umhverfisvænni húsgagnahönnun í fasteignaverkefnum.
Í tilkynningu kemur fram að Penninn húsgögn sé stærsti söluaðili húsgagna til fyrirtækja og fasteignaverkefna á Íslandi og Fólk hefur þróað, framleitt og selt íslenskar hönnunarvörur og húsgögn frá árinu 2017.
Í tilefni þessa er haft eftir Hafþóri Hannessyni, innkaupastjóra Pennans húsgagna:
„Við erum sérlega spennt fyrir samstarfinu við Fólk og horfum á það til langs tíma. Penninn húsgögn byggir velgengni sína á góðum og sérvöldum samstarfsaðilum og leggur áherslu á gæði fremur en fjölda. Með samstarfinu við Fólk svörum við aukinni eftirspurn eftir íslenskri og umhverfisvænni hönnun frá arkitektum og fyrirtækjum, sem á góða samlegð með öðrum gæðamerkjum okkar eins og Vitra, Herman Miller, Kinnarps, HAY og fleiri.“