Það var fyrst og fremst fjárhagsuppbygging ÍL-sjóðs sem varð þess valdandi að illa fór hjá sjóðnum að mati sérfræðinga sem ViðskiptaMogginn ræddi við. Forsvarsmenn þar hefðu mátt vita að bankarnir færu í samkeppni við sjóðinn á fasteignalánamarkaði. Málefni tengd slitum á ÍL-sjóði hafa verið í deiglunni að undanförnu enda reikningurinn hár.
ÍL-sjóður, sem á þeim tíma nefndist Íbúðalánasjóður, var stofnaður árið 1999 þegar Húsnæðisstofnun ríkisins var lögð niður. Sjóðurinn hafði það markmið að veita langtímalán til húsnæðiskaupa á hagstæðum kjörum. Sjóðurinn fjármagnaði útlán sín með útgáfu sérstakra skuldabréfa með ábyrgð ríkissjóðs en greiðsluflæði lána í eigu sjóðsins, sem voru tryggð með veði í fasteignum, var ætlað að greiða afborganir og vexti af skuldabréfum sjóðsins.
Einn stærsti áhættuþátturinn í rekstri ÍL-sjóðs var að skuldabréfin sem hann gaf út voru óuppgreiðanleg verðtryggð skuldabréf með ríkisábyrgð. Skuldabréf ÍL-sjóðs urðu óuppgreiðanleg í kjölfar breytinga sem sjóðurinn réðst í á árinu 2004. Þetta þýddi að sjóðurinn gat ekki endurfjármagnað sig eða greitt bréfin upp fyrir lokagjalddaga þeirra, jafnvel þótt markaðsaðstæður breyttust. Nokkuð sem síðar gerðist þegar bankarnir hófu innreið á fasteignalánamarkaðinn og eftir að vextir tóku að lækka skarpt árin eftir efnahagshrunið 2008.
Fyrir þó nokkrum árum, þegar slæm fjárhagsstaða sjóðsins varð ljós, létu stjórnendur ÍL-sjóðs hafa eftir sér í fjölmiðlum að þeir hefðu ekki gert ráð fyrir að bankarnir myndu fara í samkeppni við sjóðinn á fasteignalánamarkaði. Að mati sérfræðinga sem störfuðu á fjármálamarkaði á þessum tíma hefði sjóðnum mátt vera ljóst að bankarnir myndu hefja innreið á markaðinn og hefði því þurft að grípa til viðeigandi aðgerða.
Árið 2004 markaði þáttaskil vegna breytinga á íslenskum fasteignalánamarkaði. Eitt umdeildasta kosningaloforð í íslenskri pólitík á fyrri hluta 21. aldarinnar var svokallað 90% lána loforð Framsóknarflokksins, sem kynnt var í aðdraganda þingkosninganna 2003. Loforðið, sem síðar varð að veruleika, hafði djúpstæð áhrif á íbúðalánamarkaðinn og fjárhagsstöðu ÍL-sjóðs.
Lagaumgjörðin fyrir íbúðalánamarkaðinn breyttist þegar stjórnvöld veittu viðskiptabönkunum heimild til að bjóða íbúðalán með allt að 80% veðhlutfalli. Athygli er vakin á því að með þessu var Ísland að fylgja þróun sem hafði áður átt sér stað erlendis. Markaðsvextir lækkuðu í kjölfar innkomu bankanna á markaðinn sem hafði áhrif á fjárhagsstöðu sjóðsins. ÍL-sjóður brást við með því að hækka hámarkslánshlutfall sitt í 90%.
Fyrstu viðvörunarorð um fjárhagsstöðu sjóðsins fóru að heyrast árið 2004 en þá bentu hagfræðingar á að fjárhagsleg uppbygging hans væri ósjálfbær til lengri tíma. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 lækkaði fasteignaverð og vanskil jukust sem veikti eignasafn sjóðsins. Í kjölfarið varaði Seðlabankinn við að fjármagnskostnaður sjóðsins gæti reynst óviðráðanlegur til framtíðar. Sérfræðingar bentu á að sjóðurinn væri fastur með dýra fjármögnun en engin leið væri fyrir hann að endurfjármagna skuldir sínar. Stjórnendur hjá ÍL-sjóði hunsuðu varnaðarorð ítrekað og tilkynntu í fjölmiðlum að engin hætta væri á ferðum og gerðu lítið úr því hversu slæm staðan var.
Á árunum 2013-2025 fór að bera á viðvörunarorðum um óhjákvæmilegan fjárhagsvanda sjóðsins. Ríkisendurskoðun birti skýrslu árið 2014 þar sem varað var við að skuldbindingar sjóðsins væru ekki sjálfbærar. Samkeppniseftirlitið gaf út álit þess efnis að ríkisstuðningur við sjóðinn væri óþarflega íþyngjandi fyrir skattgreiðendur. Þá bentu sérfræðingar frá Háskóla Íslands á að sjóðurinn þyrfti annaðhvort endurfjármögnun eða niðurfellingu skulda til að komast út úr vandanum.
Árið 2019 tóku stjórnvöld þá ákvörðun að loka fyrir ný útlán hjá sjóðnum. Ásgeir Jónsson, sem þá starfaði sem deildarforseti hagfræðideildar HÍ en var síðar þetta ár ráðinn seðlabankastjóri, benti á að ÍL-sjóður hefði orðið fastur í „fjárhagslegri gildru“ vegna óuppgreiðanlegra skuldabréfa og ósveigjanleika í rekstri.
Haustið 2023 kynnti Bjarni Benediktsson, sem þá starfaði sem fjármálaráðherra, aðgerðir vegna stöðu sjóðsins. Fjármálasérfræðingar lýstu áhyggjum af því að yfirtaka ríkisins gæti veikt stöðu ríkisfjármála og haft áhrif á lánshæfi Íslands.
Lífeyrissjóðir fylgdust náið með málinu, þar sem margir þeirra áttu verulegan hluta af hinum svokölluðu HFF-bréfum sjóðsins og höfðu hagsmuni af því hvernig skuldirnar yrðu endurgreiddar. Bréfin, sem fyrst voru gefin út árið 2004, voru verðtryggð með jöfnum greiðslum tvisvar á ári, óuppgreiðanleg með öllu auk þess að vera með ríkisábyrgð. Gefnir voru út fjórir flokkar með gjalddaga 2014, 2024, 2034 og 2044. Í október 2024 kom í ljós að skuldatryggingarálag ríkisins væri að hækka vegna áhyggja fjárfesta af stöðu sjóðsins.
Í síðustu viku var síðan kynnt að viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafa 18 lífeyrissjóða hefði mótað tillögur um uppgjör HFF-bréfa, sem greiða mun fyrir slitum ÍL-sjóðs. Kröfur samkvæmt HFF-bréfum eru í uppgjörinu metnar á 651,4 milljarða króna. Viðmælendur ViðskiptaMoggans telja þetta farsæla lausn á annars erfiðu máli.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í morgun.