Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Verða meginvextir bankans því 7,75%.
Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun en þetta er í fjórða skiptið í röð sem bankinn lækkar vextina.
Lækkunin er einnig í samræmi við spá greiningadeild Íslandsbanka.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að verðbólgan hafi verið 4,2% í febrúar og hafi ekki verið minni í fjögur ár. Hjöðnunin sé á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hafi minnkað.
Þá sé útlit fyrir að áfram dragi úr verðbólgu á næstu mánuðum.
Í síðasta mánuði lækkaði peningastefnunefnd stýrivexti um 0,5 prósentustig. Í nóvember voru þeir lækkaðir 0,5 prósentustig og í október voru þeir lækkaðir um 0,25 prósentustig.
„Hægt hefur á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu er í rénun. Að sama skapi hefur dregið úr umsvifum á húsnæðismarkaði. Hátíðnivísbendingar gætu þó bent til þess að neysluútgjöld heimila hafi aukist á ný. Þá mælist enn mikil hækkun launakostnaðar og verðbólguvæntingar eru áfram yfir markmiði,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar kemur þó einnig fram að verðbólguþrýstingur sé enn til staðar, sem kalli á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref.
„Við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.“
Fréttin hefur verið uppfærð.