Afkoma hins opinbera versnar milli ára

Áætlað er að heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs …
Áætlað er að heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs hafi aukist um 5,8% á milli áranna 2023 og 2024 en heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 8,6%. Ljósmynd/Aðsend

Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 160,8 milljarða króna árið 2024 samkvæmt bráðabirgðatölum eða sem nemur 3,5% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman árið 2023 neikvæð um 2,3% af VLF eða 99,5 milljarða króna.

Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Áætlað er að heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs hafi aukist um 5,8% á milli áranna 2023 og 2024 en heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 8,6%.

42 milljarða króna halli á fjórða ársfjórðungi 2024

Áætlað er að tekjujöfnuður hins opinbera hafi verið neikvæður um 42,2 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2024 eða sem nemur 3,6% af VLF ársfjórðungsins. Til samanburðar var 65,2 milljarða króna halli hjá hinu opinbera á fjórða ársfjórðungi 2023. Áætlað er að tekjur hins opinbera hafi aukist um 7,1% og heildarútgjöld um 2,1% á tímabilinu.

Tekjur hins opinbera 42,8% af VLF

Tekjur hins opinbera eru áætlaðar 1.974,4 milljarðar króna árið 2024 eða sem nemur 42,8% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.866,8 milljarður króna árið 2023 eða 43,0% af VLF þess árs. Á verðlagi hvers árs jukust þar með tekjur hins opinbera um 107,7 milljarða á árinu 2024, borið saman við fyrra ár, eða 5,8%.

Áætlað er að heildartekjur ríkissjóðs hafi aukist um 4,9% frá fyrra ári og að þær nemi 1.432,9 milljörðum króna árið 2024. Tekjur sveitarfélaga eru áætlaðar 610,4 milljarðar króna sem er 9,6% aukning frá fyrra ári. Heildartekjur almannatrygginga jukust um 8,2% á tímabilinu og eru áætlaðar alls 411,6 milljarðar króna á árinu 2024.

Útgjöld hins opinbera 46,3% af VLF

Útgjöld hins opinbera eru áætluð 2.135,3 milljarðar króna árið 2024 eða sem nemur 46,3% af VLF. Til samanburðar námu útgjöldin 1.966,2 milljörðum króna árið 2023 eða 45,3% af VLF þess árs. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 1.572,6 milljarðar króna árið 2024 sem er aukning um 9,8% frá fyrra ári. Áætluð útgjöld sveitarfélaga nema 633,9 milljörðum króna á árinu 2024 og nemur aukningin 6,5% frá fyrra ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK