Gætum séð fjölgun ferðamanna frá Evrópu

mbl.is/Karítas

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir hátt gengi dollara meðal annars hafa haldið uppi miklum heimsóknum ferðamanna frá Bandaríkjunum, spurður um áhrif þess ef ferðamönnum þaðan fer að fækka hér á landi og möguleg áhrif á verðbólgu.

„Þó að Ísland sé dýrt hefur það ekkert verið sérstaklega dýrt miðað við Bandaríkin. Það er viðbúið að lækkun á dollar og lækkun á hlutabréfamarkaði úti, sem áhrif hefur á eignir fólks, leiði til þess að fólk fari minna í ferðalög.“

mbl.is/Karítas

Seðlabankastjóri segir í samtali við mbl.is að nú virðist sem í gangi sé hliðrun milli evru og dollars. Dollarinn hafi verið að veikjast og evran að styrkjast.

Veltir Ásgeir því upp að hugsanlega komi fleiri ferðamenn frá Evrópu þegar evran styrkist. Þá segir hann að raungengi krónunnar hafi hækkað svolítið, hún hafi verið að styrkjast og það eitt og sér hafi áhrif á ferðaþjónustu.

„Ef ferðaþjónusta veikist mun það hægja á hagvexti og vinnuaflseftirspurn sem leiðir af því að hagkerfið kælist frekar. Á sama tíma hefur minni útflutningur áhrif á gengið og lægra gengi hækkar verðbólgu.“

Ekki orðið var við framleiðnistökk eða bætt viðskiptakjör

Spurður um áhrif kjarasamninga við kennara og hugsanlegar hækkanir þjónustugjalda sveitarfélaga í kjölfarið segir Ásgeir að sveitarfélög hafi ekki velt miklum hækkunum út í verðlagið á þessu ári.

„Þau gerðu það töluvert árið á undan. Ég held að það gæti valdið óánægju hjá t.d. ASÍ ef það verður aftur gert.“

Segir hann stærstan hluta af kostnaði sveitarfélaga vera laun og að mögulega þurfi að eiga sér stað samtal milli ríkisins og sveitarstjórna um tekjuskiptingu og einhverja sameiginlega ábyrgð.

Talað var um að kennarasamningar yrðu teknir út fyrir sviga sem leiðrétting. Er innistæða fyrir kröfu annarra stétta um sambærilegar launahækkanir?

„Nei, ekki þegar þú ert að tala um heildarkerfið. Ef við tölum bara um einkageirann eða framleiðslugreinar er einhver framleiðni eða bati í viðskiptakjörum við útlönd og það að við séum að fá hærra verð fyrir okkar vöru erlendis er alltaf það sem getur talist innistæða fyrir launahækkunum.“

Segist Ásgeir ekki hafa orðið var við eitthvert framleiðnistökk hér á Íslandi og segir viðskiptakjör ekki hafa verið að batna.

Höfrungahlaup ef sá skilningur rofnar

„Án þess að ég sé að lýsa skoðunum mínum á einstaka kjarasamningum. Ef kennarar eru teknir út fyrir sviga þá þarf það að vera trúverðugt og setja verður upp árangursviðmið og gæta þess að launahækkanir séu tengdar einhverjum árangri sem samningarnir eiga að skila fyrir þjóðina, eins og í bættu menntakerfi.

Það er ekki sjálfgefið að það að hækka laun einhverra hópa komi til baka til þjóðarbúsins. Þannig held ég að það sé mjög mikilvægt hvernig samningunum er fylgt eftir og að það verði tryggt að einhver trúverðugur árangur verði. Ég held að það sé erfitt fyrir okkur öll að vera á móti því að fá bætta menntun,“ segir Ásgeir.

Hann segir Seðlabankann telja lífskjarasamninginn síðasta vor mjög mikilvægan. Þess vegna sé mikilvægt að það sé sameiginlegur skilningur á vinnumarkaðnum um að allir verði á sama hraða.

„Ef sá skilningur rofnar fáum við það sem kallast höfrungahlaup,“ segir Ásgeir og vísar til þess þegar einn hópurinn biðji um hækkun og sá næsti um meiri hækkun og svo framvegis.

„Þó að Seðlabankinn sé ekki aðili að kjarasamningum þá er þetta auðvitað eitthvað sem við höfum áhyggjur af.“

Ásgeir segist persónulega hafa verið ánægður með hvernig verkalýðsarmurinn og atvinnurekendur töluðu um framleiðni í kringum lífskjarasamningana og segist hann minna að stofna eigi framleiðninefnd. Ég var mjög ánægður með samstarfið sem var í kringum þann samning.

„Ég er að vona að það geti leitt til þess að einhverju leyti verði hægt að setja einhver sameiginleg markmið, eins og að tengja hagvöxt við launahækkanir og verðmætasköpun þjóðarinnar því við erum mjög háð því sem okkur heppnast að selja í útlöndum á þessari pínulitlu eyju.“

Náum mögulega að spila okkur í gegn

Spurður út í áhrif tollastríðs segir Ásgeir ekkert hafa komið fram sem breytir því sem Seðlabankinn hefur sett upp.

„Bandaríkin hafa tekið ákvörðun að leggja tolla á sín landamæri og aðrar þjóðir hafa brugðist við en við höfum ekki séð t.d. að Evrópa og Kína séu að fara í tollastríð eða Suður-Ameríka og Asía, þannig að það sem gæti alveg gerst væri að heimurinn haldi áfram. Kanada fari að versla við Evrópu og við færum að einhverju marki viðskipti okkar til annarra landa og Bandaríkjamenn færu aðeins til hliðar.“

Þá segir Ásgeir tengsl tolla og gjaldmiðla skipta máli. Tollar á landamærum Bandaríkjanna ættu að öllu jöfnu að styrkja dollarinn ef aðeins er litið á vöruskipti. Almennt séð hafi þó verið dregið úr vægi Bandaríkjanna sem útgefanda dollarsins sem forðamyntar.

„Dollarinn er að lækka. Það getur alveg haft þýðingu líka. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað gerist. Mögulega náum við að spila okkur nokkurn veginn í gegnum þetta.

Evran er að hækka og í Þýskalandi verða ríkisútgjöld aukin sem mun ýta eftirspurn af stað þar og hærri evra mun gera það arðvænlegra fyrir okkur að flytja vörur þangað.“

Verð á matvælum og varanlegum neysluvörum skiptir máli

Spurður út í verðhækkanir á Íslandi sem afleiðingu af tollastríði og verðhækkunum erlendis segir Ásgeir erfitt að spá fyrir um slíkt.

„Það er sérstakt að Bandaríkjamenn setja tolla á ál og stál sem eru framleiðsluþættir en ekki fullunnar vörur. Það sem skiptir okkur máli er verð á varanlegum neysluvörum og matvælaverð en Bandaríkjamenn eru stórir matvælaútflytjendur.“

Lýsir hann því sem gerðist eftir covid sem var að verð hækkaði almennt á varanlegum neysluvörum eins og bílum, heimilistækjum og fleiru. Segir hann það alveg kunna að gerast núna.

„Það sem við erum að sjá núna er að einhverju marki það að þessi þróun sem var í lækkun kostnaðar, aukningu alþjóðaviðskipta, færslu iðnaðar og starfa til Asíu. Sú þróun er að einhverju marki að ganga til baka. Við sjáum t.d. að í Evrópu er skortur á vinnuafli þó að það sé ekki endilega mikill hagvöxtur.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir þessu en það sem kæmi fyrst inn væru áhrif af hækkun matvælaverðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK