Johannes Schildt, stjórnarformaður og stofnandi sænska heilbrigðistæknifyrirtækisins Kry, segir í samtali við Morgunblaðið að til greina komi að hasla sér völl á Íslandi, en fyrirtækið er nú þegar með starfsemi í nokkrum löndum.
Schildt mun fjalla um þjónustu Kry á ráðstefnunni Stafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu: Tækifæri fyrir Ísland, sem fram fer í lyfjafyrirtækinu Alvotech í Vatnsmýri í Reykjavík í dag.
Á ráðstefnunni verður sjónum meðal annars beint að því hvernig hægt er að auka hagkvæmni í íslenska heilbrigðiskerfinu.
Eins og Schildt útskýrir þá hefur starfsemi Kry minnkað álag á heilbrigðiskerfin í þeim löndum sem fyrirtækið starfar í. Svartími styttist og álag dreifist.
Kry er stærsti stafræni þjónustuveitandinn á heilbrigðissviði í Evrópu, en Schildt er einn af leiðandi frumkvöðlum Svíþjóðar og var valinn á topp 30-lista Forbes tímaritsins bandaríska yfir unga frumkvöðla í Evrópu. Þá valdi Wired tæknitímaritið Kry eitt af heitustu sprotafyrirtækjunum.
Schildt stofnaði fyrirtækið árið 2015 þegar hann var aðeins 25 ára gamall. Drifkrafturinn að baki stofnuninni var að umbylta aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
„Það eru fleiri með Kry-reikning í Svíþjóð en Netflix-aðgang,“ segir Schildt og bætir við að nær þriðjungur þjóðarinnar noti þjónustuna. „Allir Svíar þekkja okkur. Svo störfum við í Frakklandi, Bretlandi og í Noregi. Starfsmenn eru fjögur þúsund.“
Eins og Schildt útskýrir var fyrirtækið í upphafi eingöngu hugbúnaðarfyrirtæki en færði síðar út kvíarnar og veitir nú einnig áþreifanlega heilsugæsluþjónustu. „Við rekum sextíu og sex heilsugæslustöðvar þar sem við tökum á móti fólki.“
Schildt segir að það sem kveikti hugmyndina í upphafi hafi verið ákveðin persónuleg gremja hans með ástandið í stafrænni þjónustu á þessu sviði. „Fyrir tíu árum gat maður keypt hús og bíl á netinu en ekki grundvallarheilbrigðisþjónustu. Það eina sem var í boði var að hringja og reyna að panta tíma hjá lækni sem tók alltof langan tíma. Ég hugsaði að það hlyti að vera hægt að bæta úr því. Nú erum við orðin mikilvægur þáttur í grunnheilbrigðisinnviðum og veitum fólki aðgang að heilbrigðisstarfsfólki innan nokkurra mínútna í myndsímtali auk þess að reka eigin áþreifanlegar heilsugæslustöðvar.“
Kry býður í dag þjónustu allan sólarhringinn og fyrirtækið hefur verið drifkraftur aukinnar skilvirkni á sviðinu. „Áður var algengt að fólk þyrfti að bíða alltof lengi eftir þjónustu og endaði á bráðamóttökunni með tilheyrandi auknu álagi á sjúkrahúsin. Með Kry-lausninni getum við gripið fólk og leyst úr vanda þess fljótt og vel. Við getum m.a. skrifað út lyfseðla og tekið blóðprufur. Við veitum mjög breiða þjónustu.“
Spurður um Ísland og hvort Kry gæti hugsað sér að nema land þar segir Schildt að Ísland sé áhugaverður markaður. „Við erum alltaf opin fyrir nýjum mörkuðum til að hjálpa kerfinu að verða skilvirkara og praktískara. Það yrði líka góð afsökun fyrir mig að heimsækja landið oftar,“ segir Schildt og brosir.
Kry er í einkaeigu og velti 250 milljónum evra á síðasta ári, eða tæpum 37 milljörðum íslenskra króna. EBITDA jókst um 90% 2024.
„Frá sjónarhóli sjúklingsins er þetta frábær þjónusta sem virkar,“ segir Schildt en þjónustan er að hans sögn svokallað PPP-verkefni (samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila).