Skiptafundi á þrotabúi Niceair lauk nýlega. Samkvæmt kröfuskrá lýstu kröfuhafar samtals 184 milljónum króna í þrotabúið, þar af voru forgangskröfur um 32,5 milljónir, almennar kröfur 144 milljónir og eftirstæðar kröfur rúmar 1,6 milljónir.
Samkvæmt heimildum mbl.is fengu kröfuhafar enga fjármuni endurgreidda þar sem þrotabúið var eignalaust.
Niceair var tekið til gjaldþrotaskipta vorið 2023 og sagði stjórnin í tilkynningu til fjölmiðla að rekstur félagsins hefði orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna flugrekstraraðilans HiFly sem varð til þess að félagið hafði ekki lengur flugvél til umráða.
Niceair hóf millilandaflug frá Akureyri í júní 2022 og bauð upp á ferðir til Danmerkur, Bretlands og Spánar. Í apríl 2023 aflýsti félagið öllu flugi og í lok þess mánaðar var öllu starfsfólki sagt upp og sótt um gjaldþrotaskipti í maí sama ár.