Húsbyggjandinn Gunnar Ingi Bjarnason segir litla eftirspurn eftir íbúðum sem eru ekki með bílastæðum. Þvert á móti sé erfitt að selja íbúðir sem eru ekki með bílastæðum.
Heyrst hafa kröfur um að fækka bílastæðum. Þá meðal annars með vísan í hamfarahlýnun og nauðsyn þess að draga úr bílaumferð. Hvernig er stemningin fyrir þessu viðhorfi?
„Lítil sem engin. Við finnum fyrir því að það er ekki mikil eftirspurn eftir íbúðum án bílastæða. Maður finnur fyrir því hér í hverfinu að eitt af því sem er að pirra fólk er bílastæðaleysi. Það er erfiðast að selja íbúðir sem eru ekki með bílastæðum. Markaðurinn virðist ekki vera að kalla eftir þessu. Við höfum lagt áherslu á að bjóða upp á aðstöðu til að hlaða rafbíla og reynum eftir fremsta megni að koma fyrir eins mörgum bílastæðum og borgin leyfir okkur, sem er öfugt við hugmyndafræðina annars staðar,“ segir Gunnar Ingi.
Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, sagði við ViðskiptaMoggann á dögunum að það væri ekki mikil eftirspurn eftir 4-5 herbergja íbúðum en samt væri gerð krafa um þær á þéttingarreitum, þar með talið á Ártúnshöfða. Hvað finnst þér um þetta sjónarmið?
„Það er erfitt að segja til um það enda er allur gangur á því hvernig íbúðum markaðurinn er að kalla eftir. Maður hefur sett á markað þriggja herbergja 70-90 fermetra íbúðir sem maður heldur að séu frábær söluvara en svo koma tímabil þar sem það selst ekki ein svoleiðis íbúð heldur eru allir að leita að fjögurra herbergja íbúðum. Það er erfitt að fullyrða um þetta. Við byrjuðum að selja íbúðir hér á Hlíðarenda árið 2020. Margar íbúðir sem maður heldur að fari strax fara ekki, og svo allt í einu fara þær allar, þá sitja eftir stærri íbúðir. Svo breytist þetta og við förum í gegnum þennan hring aftur.“
Þú ert þá ekki á móti því að það séu stórar íbúðir á reitunum?
„Nei. Alls ekki. Þær eru oft langvinsælastar. Hér koma til fjölskyldustærðir og aðrir þættir, það fer eftir kaupandanum hverju hann er að leita að. Og það er markhópur fyrir öllum stærðum af íbúðum,“ segir Gunnar Ingi.
Ítarlegt viðtal við hann birtist í ViðskiptaMogganum.