Að fara á límingunni á 58 dögum

Trump skoðar sig um í tónlistarhöll Washington-borgar. Hann er ekki …
Trump skoðar sig um í tónlistarhöll Washington-borgar. Hann er ekki eins óútreiknanlegur og margir halda. AFP/Jim Watson

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Hér á Ítalíuskaganum hefur aldrei verið skortur á litríkum leiðtogum. Fyrst komu rómversku keisararnir, sem voru sitt á hvað útsmognir klækjarefir, sjálfhverfir rugludallar og göfugir landsfeður. Svo komu aðalsættir endurreisnartímabilsins og með þeim heill haugur af prinsum, hertogum og páfum sem gerðu sér það að leik að lifa hátt og stinga hver annan í bakið. Loks færðu 20. og 21. öldin Ítölum menn á borð við Mussolini og Berlusconi.

Það er hægt að halda upp á suma þessara leiðtoga þó að þeir hafi ekki verið sómamenn í alla staði. Sumir eru einmitt skemmtilegir fyrir þær sakir hvað þeir gátu verið kræfir og óforskammaðir. Ég kemst t.d. ekki hjá því að halda upp á Alexander VI. páfa, en það er honum að þakka – eða kenna – að enn þann dag í dag tengir fólk Borgia-ættina við syndsamlegt líferni og frændhygli. Sögurnar um Alexander eru svo margar, og svo krassandi, að þær geta varla allar verið sannar en um það verður ekki deilt að hann eignaðist fjölda barna með fjölda kvenna og líklega hefur hann líka átt það til að gamna sér með laglegum ungum mönnum. Fyrir Alexander var lífið eitt allsherjar veisluborð.

Alexander VI. var þó ekki alslæmur, og honum tókst t.d. að koma í veg fyrir að stríð brytist út á milli Portúgals og Spánar um yfirráð yfir Vesturheimi. Hann breiddi líka út faðminn á móti þúsundum gyðinga sem Ferdinand og Ísabella hröktu frá Spáni, og var boðinn og búinn að liðsinna hverjum þeim sem átti um sárt að binda. Svo virti Alexander tjáningarfrelsi samlanda sinna – meira að segja þegar þeir skálduðu upp rætnar kjaftasögur um páfann sjálfan, og við eigum mörg meistaraverk Michelangelos og Rafaels Alexander VI. að þakka.

Sagnfræðingurinn William Landon er ósköp sanngjarn þegar hann bendir á að Alexander VI. hafi, þrátt fyrir allt, ekki verið mikið verri en hans eigin samtímamenn. Ráðabrugg, sukk og svínarí var fyrir löngu orðið lenska í Róm þegar Alexander mætti þar til leiks – hann var einfaldlega afsprengi og holdgervingur sinnar samtíðar.

Það er ágætt að leyfa lesendum að spreyta sig aðeins á Machiavelli á frummálinu og lesa hvernig hann komst að orði þegar hann lýsti verkum – og voðaverkum – Borgia-ættarinnar, og benti á að þrátt fyrir allt voru áhrif þeirra á ítalskt samfélag ekki alslæm og jafnvel góð:

„E nelle azioni di tutti gli uomini, e massime de’ principi, dove non è iudizio a chi reclamare, si guarda al fine.“

Í lauslegri þýðingu: Þegar við dæmum mannanna verk, og sér í lagi þegar furstar eiga í hlut, verðum við líka að meta hver útkoman varð.

Þegar allir hrukku í kút

Það er ekki alltaf auðvelt að halda uppi vörnum fyrir Donald Trump.

Á blaðamannafundinum fræga, þar sem allt fór í háaloft, varð Trump sér til minnkunar, en þeir Selenskí og Vance líka. Þegar fundurinn er skoðaður í heild sinni má sjá að Selenskí vildi reyna að nota fundinn, fyrir framan myndavélarnar, til að breyta því sem þegar hafði verið samið um. Selenskí potaði í Trump – á hans heimavelli – og Vance potaði á móti, og loks fylltist mælirinn hjá Trump.

Eftir þessa leiðinlegu uppákomu fór vestræna stjórnmálaelítan í hnút og lét eins og þetta væri í fyrsta skiptið sem kjörnir fulltrúar hefðu nokkurn tíma rifist. Eitt hefur leitt af öðru og nú má sjá viðtölin við hvern stjórnmálamanninn á fætur öðrum sem segir frá því, með alvörugefnum svip, að vináttu- og varnarsambandið við Bandaríkin sé að engu orðið. Geðshræringin er svo mikil að meira að segja sumir íslenskir sjálfstæðismenn halda að til að finna öruggt skjól í hörðum heimi þurfi Ísland að ganga í Evrópusambandið, þó að þar sé allt á niðurleið og atvinnulífið að drukkna í reglugerðum.

Í því sambandi er gott að minna á að Finnland á metið í stysta umsóknarferlinu hjá ESB, en þar liðu þrjú ár frá umsókn til aðildar. Svíar koma næstir með fjögur ár, en alla jafna hefur það tekið þjóðir um það bil áratug að fá inngöngu. Trump verður því örugglega farinn frá völdum áður en Íslandi verður úthlutað sæti við borðið í Brussel.

En auðvitað er það af og frá að Bandaríkin hyggist gefa Nató upp á bátinn eða að Trump ætli að klekkja á vestrænum vinaþjóðum. Ég hef sagt það áður, og segi það enn: það á að taka Trump alvarlega, en það á ekki að taka hann bókstaflega.

Listin að skilja Trump

Kannast lesendur við það að vera másandi og blásandi á hlaupabrettinu, líða eins og hlaupaprógrammið hljóti að vera hálfnað en líta svo á mælaborðið og sjá að það eru ekki nema nokkrar mínútur liðnar af 30 mínútna skokki? Tilfinningin er svipuð eftir að Trump komst aftur til valda. Í dag eru ekki liðnir nema 58 dagar af kjörtímabilinu – ekki einu sinni tveir mánuðir – og 96% af kjörtímabilinu eru eftir.

Til að þrauka næstu 46 mánuðina er mikilvægast að fólk skilji þær aðferðir sem Trump beitir. Hann hefur t.d. komist upp á lagið með að slengja fram fjarstæðukenndum hugdettum, eins og að innlima Grænland. Í hvert skipti virkar þetta til að skapa líflega umræðu um vandamál sem annars hefðu ekki fengið neina athygli. Fyrst fer Trump langt yfir strikið, en svo dregur hann í land og yfirleitt er niðurstaðan eitthvað sem allir geta sætt sig við.

Það er heldur ekki að ástæðulausu að Macron virðist eiga auðvelt með að tjónka við Trump, enda er stutt í skjallið hjá Frökkunum. Trump er mjög móttækilegur fyrir skjalli og vegtyllum, og hitti blaðamaðurinn Fareed Zakaria naglann á höfuðið þegar hann benti á að Selenskí hefði frekar átt að mæta til fundarins í Washington með risastóra medalíu handa Trump og boði um að byggja sem allra fyrst heimsins stærsta Trump-turn í Úkraínu. Þá hefði Trump ekki verið neitt nema velvildin.

Trump gæti virkað óútreiknanlegur og uppátækjasamur, en hann er fyrirsjáanlegur að því leyti að hann fylgir eigin eðlisávísun og er drifinn áfram af frekar augljósum hvötum. Hann spilar ekki eftir þeim reglum sem vestrænir stjórnmálamenn eru vanir, en hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur.

Svo er ágætt að muna að Trump, eins og Alexander VI., er einfaldlega afsprengi sinnar samtíðar. Með hverjum áratugnum virðast stjórnmálin og samfélagsumræðan hafa færst niður á lægra plan, jafnt í Bandaríkjunum sem annars staðar, og keyrði um þverbak eftir tilkomu samfélagsmiðlanna. Trump er lækningin við ákveðnu meini (og mixtúran er súr), en eins og bandarísk stjórnmál voru orðin þurfti manngerð eins og Trump til að slá vopnin úr höndum vinstrimanna, komast á toppinn og reyna að beina hlutunum í ögn skárri farveg.

Kannski verður næsti forseti Bandaríkjanna djúpvitur, yfirvegaður og sjarmerandi sómamaður – hver veit? En mig grunar að þegar valdatíð Trumps er lokið muni það blasa við að hann kom mörgu góðu í verk og skilaði af sér betra búi en hann tók við.

Si guarda al fine.

(Greinin birtist upphaflega í ViðskiptaMogganum miðvikudaginn 19. mars)

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK