Ýmir Vigfússon, einn stofnenda Keystrike, hugbúnaðarfyrirtækis á sviði netöryggis, sem er í fjármögnunarlotu og hyggst safna 5-7 milljónum bandaríkjadala í nýtt hlutafé, eða nálægt einum milljarði íslenskra króna, hefur persónulega reynslu af netglæpum. „Ég ólst upp sem hakkari á unglingsárunum. Ég og félagi minn náðum að brjótast inn í netþjónustu Islandia og skemmdum óvart einn þjón og fengum nístandi samviskubit. Við fórum því og bönkuðum upp á. Þar tók á móti okkur skilningsríkur kerfisstjóri sem hjálpaði okkur að laga tjónið og bauð okkur svo vinnu í kjölfarið.“
Hann segist síðan hafa haldið áfram að fikta í netöryggismálum. „Ég fann að það voru blikur á lofti og peningar að koma inn í greinina.“
Ýmir kláraði síðan stærðfræði í Háskóla Íslands og doktorspróf í tölvunarfræði frá Cornell-háskóla þegar hann var 25 ára.
Ýmir gerðist lektor í Háskólanum í Reykjavík árið 2011. „Þá var ég enn með samviskubit yfir bernskubrekunum en hugsaði að besta leiðin til að gera yfirbót væri að leggja mitt af mörkum til að auka öryggið í geiranum. Ef ekki ég, hver þá? spurði ég mig,“ segir Ýmir, en í kjölfarið fór hann af stað með vinsælar hakkarakeppnir innan skólans. Ekki löngu síðar stofnaði hann Syndis og í kjölfarið Adversary. Nú býr hann ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum í Rensselaer í New York-ríki. „Við fluttum út árið 2014. Konan mín var þar faraldsfræðingur og fylkisþingmaður en ég fastráðinn dósent í tölvunarfræði við Emory-háskólann þar sem hugmyndin að baki Keystrike fæddist.“