Hvenær er rétti tíminn til að fara í frumútboð?

Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland.
Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland. María Matthíasdóttir

Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland skrifar:

Við í Kauphöllinni fáum oft spurningar um það hvers konar fyrirtæki eigi erindi á markað og hvenær rétti tíminn sé til að fara í frumútboð. Skráning á markað getur stutt við fjármögnun fyrirtækja, aukið sýnileika þeirra og hjálpað þeim að vaxa.

Aðstæður á markaði

Nasdaq hefur lagst í ítarlegar greiningar á því við hvaða aðstæður líklegast er að fyrirtæki fari í frumútboð. Afraksturinn má m.a. sjá í frumútboðsvísitölum, Nasdaq IPO Pulse index, sem hafa verið gefnar út bæði fyrir Bandaríkin og Svíþjóð. Vísitölunum er ætlað að endurspegla hversu móttækilegur markaðurinn er fyrir frumútboðum hverju sinni. Eftirfarandi eru þau atriði sem talin eru gefa vísbendingar um mögulega fjölgun frumútboða (helstu áhrifaþættir bandarísku vísitölunnar):

Vaxtabreytingar. Eru vextir að hækka eða lækka? Lækkandi vextir haldast oft í hendur við aukið flæði inn á hlutabréfamarkað, sem getur skilað sér í meiri eftirspurn í frumútboðum.

Sveiflur á markaði. Ársbreytingar á VIX-vísitölunni, sem mælir vænt flökt á hlutabréfamörkuðum. Fjárfestum er illa við óvissu og stöðugleiki einfaldar áætlanagerð.

Ávöxtun. Ársbreytingar á helstu hlutabréfavísitölum. Fyrirtæki vilja frekar fara í frumútboð þegar hlutabréfaverð er á uppleið.

Verðmöt. Há verðlagning eykur líkurnar á frumútboðum, enda vænlegra fyrir eigendur að selja eða sækja nýtt fjármagn við þær aðstæður.

Stemningin á mörkuðum. Kannanir á væntingum fjárfesta um hækkanir/lækkanir hlutabréfaverðs á komandi ári. Meiri stemning, fleiri frumútboð.

Sænska vísitalan er svipuð, en í stað vaxtabreytinga og stemningar á hlutabréfamörkuðum er horft til væntinga stjórnenda og neytenda um þróun hagkerfisins á komandi ári. Vísitölur beggja vegna hafsins benda til þess að vænta megi fleiri frumútboða á komandi misserum og áfram eru góðar horfur þrátt fyrir óvissu í Bandaríkjunum.

Ekki er til sams konar vísitala fyrir íslenska markaðinn. En gróflega metið út frá helstu áhrifaþáttum og samtölum við markaðsaðila má líklega segja að aðstæður hér á landi séu nokkuð góðar.

Fyrirtækin sjálf

Svo er það staða fyrirtækjanna sjálfra. Öflug fyrirtæki geta farið í vel heppnað frumútboð við lakar markaðsaðstæður og öfugt. Tíðarandinn getur að sama skapi stjórnað því hvers konar fyrirtæki eru vinsælust hverju sinni. Nú orðið er almennt mikil áhersla á gæði og fjárhagslegan stöðugleika í bland við nýsköpun. Oft er talað um öruggan vöxt (e. safe growth) í þessu samhengi: góðan rekstur, sterkt viðskiptalíkan, öfluga stjórnendur og skilvirka ferla. Á bandaríska markaðnum eru fyrirtæki í gervigreind áberandi og þau sem eru ekki í þeim bransa keppast um að segja frá því hvernig þau eru sjálf að nýta gervigreind. Á Norðurlöndunum eru það frekar fyrirtæki í fjármagnsfrekri starfsemi sem hafa sótt á markað, eins og orkufyrirtæki og fasteignafélög. Stærð fyrirtækjanna skiptir minna máli en flestir halda. Um helmingur fyrirtækja á First North-vaxtarmarkaðnum á Norðurlöndum (alls 476 talsins) var um eða undir tveimur og hálfum milljarði kr. að markaðsvirði í lok febrúar 2025 og mörg þeirra með örfáa starfsmenn. Hjá slíkum fyrirtækjum skipta gæðin og vaxtarhorfurnar meira máli.

Hver er þá niðurstaðan?

Það er að ýmsu að huga þegar taka á ákvörðun um hvort og hvenær henti að fara í frumútboð. Við erum alltaf til í samtal um slík mál og það getur einnig verið gagnlegt að eiga samtöl við ráðgjafa. Þá er ein besta leiðin til að komast að svarinu að eiga í góðum samskiptum við fjárfesta. Koma sér á framfæri og fá um leið tilfinningu fyrir eftirspurninni. Góð fjárfestatengsl munu að sama skapi auka líkurnar á því að frumútboð heppnist vel.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út sl. miðviku­dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK