Töluverð umræða hefur verið að undanförnu um Tesla sem framleiðanda og tengingar kaupanda bifreiða félagsins og fyrirtækisins sjálfs við helsta eiganda þess, Elon Musk. Sá starfar þessa dagana sem helsti niðurskurðarhnífur í opinberum rekstri og hefur þar stillt sér rækilega við hlið Donald Trump Bandaríkjaforseta og hans svokölluðu „MAGA“-baráttu.
Sala á bifreiðum Tesla hefur fallið víða um heim, bæði á heimamarkaði en sérstaklega í Kína (49%), Þýskalandi (76%) og Ástralíu (72%). Hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur einnig fallið síðustu mánuði. Flóknara er þó að lesa í stöðuna því ef tekið er mið af síðasta heila ári hefur verð á hlutabréfum félagsins aukist um meira en 35%, þrátt fyrir mikla lækkun síðasta mánuð.
Í Marketing Week er áhugaverð grein eftir Mark Ritson þar sem hann fer yfir tengingar Elon Musk við Tesla. Í greininni er fjallað um hve erfitt það getur verið fyrir fyrirtæki að samsama sig einum einstaklingi eins og Musk. Í byrjun var hann holdgervingur hins framsækna, umhverfisábyrgðar og breytinga á stöðluðum ímyndum og viðmiðum. Nú er hann hins vegar tengdur við neikvæðari hluti, einkum eftir aðgerðir hans sjálfs. Þetta hefur haft áhrif á Tesla-eigendur og framleiðandann og vilja sumir Tesla-eigendur sem fjarlægja sig frá hugmyndafræði Musks, einkum í Bandaríkjunum, enda hafa aðgerðir hans mest áhrif þar eins og sakir standa.
Þaðan kemur fyrirsögn greinarinnar; eigendur Tesla-bifreiða í Bandaríkjunum hafa margir hverjir sett sambærileg skilaboð á bíla sína til að fjarlægja sig frá persónunni og hugmyndafræði Elon Musk.
Í markaðsfræðum er almennt talað um að neikvæð umræða sé jafnvel jákvæð fyrir fyrirtæki enda séu þau þá í umræðunni. Mark Ritson kemst að þeirri niðurstöðu að það sé í raun ekki rétt. Staða Tesla sé sérstaklega erfið því neikvæða umfjöllunin stangist beint á við grunngildi vörumerkisins. Áhersla Tesla á Musk sem andlit vörumerkisins er því talin einkar áhættusöm stefna. Opinber hegðun Musks virðist í öllu falli hafa alvarlegar afleiðingar fyrir vörumerki eins og Tesla.
Sala á bifreiðum Tesla er hins vegar háð mörgum breytum og ekki einungis hegðunar Musks. Það er aukin samkeppni á markaðnum, sérstaklega frá Kína, og því ekki skrítið að sala þar hafi lækkað. Markaðir heimsins eru jafnframt eins misjafnir og þeir eru margir. Ekki hefur hjálpað hve illa stjórnmálamenn hafa staðið að reglugerðum og fyrirsjáanleika varðandi skattlagningu rafbíla. Einnig hefur tilkoma nýrrar útgáfu af mest seldu útgáfu Tesla, Model Y, haft áhrif. Markaðir hafa einfaldlega beðið eftir nýrri útfærslu og það skýrir lakari sölu síðustu mánaða.
Samkvæmt gögnum frá Samgöngustofu er Tesla þriðja mest selda vörumerkið á markaði á Íslandi með 204 skráðar bifreiðar það sem af er þessu ári. Allt árið í fyrra voru skráðar 574 Teslur. Góð byrjun ársins gefur ekki tilefni til þess að ætla að Íslendingar hafi áhyggjur af framferði Musks eða tenginga bifreiða sinna við hann.