Svipmynd: Spáir í venjur og endurtekningar

Elfa segir ýmis vandamál fylgja tækninni og Nova einbeiti sér …
Elfa segir ýmis vandamál fylgja tækninni og Nova einbeiti sér að því að hanna lausnir sem vinni gegn neikvæðum áhrifum netnotkunar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Elfa Arnardóttir, yfirmaður vörustýringar hjá Nova, segir rekstrarumhverfið krefjandi og samkeppnina harða á íslenskum fjarskiptamarkaði. Að hennar sögn eru sérkennilegir tímar þar sem tæknin þróast á ljóshraða og við áttum okkur ekki á hvaða áhrif þessi hraða framþróun hafi raunverulega á daglegt líf.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Við í Nova-liðinu lifum og hrærumst í áskorunum, það er fátt sem okkur líkar betur! Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að skora á það hefðbundna, vera fyrst inn í framtíðina með snjallar lausnir ásamt því að leggja áherslu á framþróun og nýsköpun. Ekkert af þessu kemur af sjálfu sér og við vinnum hart á hverjum degi í að tryggja framgang og árangur þeirra verkefna sem hreyfa nálina fyrir félagið og viðskiptavini þess.

Rekstrarumhverfið er krefjandi og samkeppnin hörð á markaðinum og því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að viðskiptavinir upplifi að Nova leysi vandamál þeirra af mikilli kostgæfni, hvort sem það er í gegn um vörunar okkar eða þjónustuna.

Það er okkar verðugasta áskorun að tryggja framúrskarandi upplifun viðskiptavina Nova ásamt því að standa undir loforði okkar um að vera fyrst inn í framtíðina.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Fyrst og fremst er ég svo lánsöm að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki sem veitir mér innblástur og nýja sýn á hverjum degi. Við erum að byggja upp sterkan hóp inn í viðskiptaþróun og teymið samanstendur af einstaklingum með mismunandi bakgrunn og reynslu. Við leggjum mikið upp úr því að nýta hausa hvert annars til að stækka sjóndeildarhringinn og öðlast þannig nýjar hugmyndir.

Þess utan þá hef ég tekið nokkra netkúrsa hjá erlendum aðilum sem hafa veitt mér mikinn innblástur og gefið nýja sýn inn í mín störf. Dæmi um slíkan kúrs er sex vikna míní MBA-áfangi í Brand strategy hjá Mark Ritson sem endaði á fjögurra daga hermi þar sem ég fékk raunverulega tækifæri til að spila út strategíu til fimm ára á fjarskiptamarkaði. Ég gríp mjög oft í þá reynslu og upplifun sem ég fékk þar og nýti til þess að styrkja ákvarðanatöku.

Það gefur mér jafnframt mikla orku að vera í kringum fólk og þá er vert að minnast á elsta en jafnframt besta ráðið í bókinni; að vera duglegur að bjóða kláru fólki í kaffi. Ég hef gert mikið af því í gegn um tíðina og alltaf hefur það skilað sér margfalt inn í dagleg störf.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Við erum á ótrúlega spennandi vegferð hjá Nova sem ég brenn fyrir af öllu hjarta. Við erum meðal annars að einbeita okkur að því að leysa vandamál sem eru tilkomin vegna tækni, með tækni, og með það að leiðarljósi förum við inn í hönnun á lausnum fyrir viðskiptavini sem vinna gegn neikvæðum áhrifum netnotkunar.

Við lifum á sérkennilegum tímum að því leyti að tæknin þróast á ljóshraða og við erum í raun enn að komast að því hvaða áhrif þessi hraða framþróun hefur á daglegt líf.

Margt er varðar öra tækniþróun er frábært en þessu fylgja einnig venjur sem eru minna góðar. Við hjá Nova skiljum okkar ábyrgð og hlutverk hér. Við leggjum áherslu á að þróa heilsueflandi vöru- og þjónustuframboð, sem er mjög í takt við mín persónulegu gildi.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Ég er í draumastarfinu mínu að svo stöddu. Ég veit fátt skemmtilegra en að liggja yfir stefnumótun, skapa framtíðarsýn og tryggja að verkefnin sem við vinnum að skili sér inn í þá sýn. Í starfi mínu hjá Nova fær ég tækifæri til þess að veita öllum hliðum mínum útrás; verkfræðitýpunni, nýsköpunartýpunni og mínu innra markaðs/vörumerkjanördi. Ég gæti ekki hugsað mér betri samsetningu.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Atomic habits og Five disfunctions of a team. Báðar þessar bækur hafði ég lesið áður en ég byrjaði hjá Nova en það er gaman að segja frá því að þær eru eins konar biblía hér inni líka. Ég hef mjög gaman af því að spá í venjur og hvernig smávægilegar endurteknar athafnir geta lagt grunn að langtímaárangri.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki og hegðun fólks. Atferlishagfræði (Behavioral economics) er svið innan hagfræðinnar sem rannsakar hvernig sálfræðilegir, félagslegir og tilfinningalegir þættir hafa áhrif á efnahagslegar ákvarðanir einstaklinga og fyrirtækja. Ég held að það væri áhugaverð viðbót fyrir mig í draumaheimi þar sem tími fæst gefinn.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK