Það gerðist fyrir hálfgerða tilviljun að útsendari ViðskiptaMoggans á alþjóðaplani afréð að dúsa í Mílanó yfir köldustu vetrarmánuðina. Gamall leigusali átti lausa íbúð sem ég gat fengið á mjög sanngjörnu verði, og mér líkaði ágætlega sú tilhugsun að taka hæfilega langt stopp í hjarta evrópskrar siðmenningar. Svo myndi kannski gefast tækifæri til að reynsluaka nokkrum ítölskum sportbílum fyrir Bílablaðið.
Ég var rétt skriðinn yfir tvítugt þegar ég heimsótti Mílanó fyrst. Ég tók aftur nokkuð langt stopp um miðjan síðasta áratug, og ég hef flækst hérna í gegn af og til bæði í vinnu- og einkaerindum. Samt gat ég aldrei sagst hafa fallið fyrir Mílanó, nema kannski núna þegar styttast fer í brottför.
Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um þessa borg. Á köflum virkar hún grá og drungaleg, og þegar komið er út fyrir miðborgarkjarnann sést vel að Ítalir eru ekki hátekjufólk. En svo koma töfrarnir í ljós; í sjarmerandi hliðargötu sem ég vissi ekki af, eða við matarborðið á heimilislegum veitingastað. Töfrarnir sjást líka stundum í borgarbúunum sjálfum enda er hið daglega líf ákveðið listform hér á Ítalíu.
Núna, þegar ég á bara hálfan mánuð eftir af nokkurra mánaða dvöl, finnst mér eins og ég sé rétt að byrja að uppgötva borgina. Ég á það meira að segja eftir að kíkja á málverk Leonardós af síðustu kvöldmáltíðinni, en ég legg bara ekki í það að reyna að ná í miða því það er yfirleitt uppselt í safnið tvo mánuði fram í tímann.
Í kveðjuskyni við Mílanó langar mig að benda lesendum á nokkra staði sem ég mæli með að þeir vitji, ef þeir eiga leið um Langbarðaland. Eins og Mílanó sæmir samanstendur listinn bæði af heimsfrægum menningarstofnunum, einni dómkirkju og nokkrum musterum ítalskrar tísku.
Pinacoteca di Brera: Við eigum Napóleon að þakka þetta fína safn en hann sá fyrir sér að Brera gæti orðið n.k. ítölsk útgáfa af Louvre. Brera kemst reyndar ekki með tærnar þar sem Louvre hefur hælana, hvorki hvað varðar stærð né safnkost, en er samt alveg heimsóknarinnar virði. Benda má sérstaklega á að í kaffiteríunni er að finna verk eftir Bertel Thorvaldsen til minningar um listmálarann Andrea Appiani. Vissara er að kaupa miða með nokkurra daga fyrirvara.
E. Marinella: Sögu þessarar litlu herrafataverslunar má rekja aftur til ársins 1914 en fyrirtækið rekur í dag útibú á nokkrum stöðum í heiminum. Fatnaðurinn er ekki úr hófi dýr og endurspeglar vel ítalska stílinn.
Xerjoff: Beint á móti risaverslun og hóteli Armani er að finna agnarsmáa búð ítalska ilmvatnsframleiðandans Xerjoff. Þar er gaman að reka inn nefið og fá að þefa af einhverju nýju og spennandi.
Rubinacci: Saga þessa ítalska tískuhúss nær til ársins 1932 og rekur fyrirtækið tvær verslanir til viðbótar í Napólí og London. Búðin þeirra á Via Gesù, mitt í dýrasta og fínasta verslunarhverfi Mílanó, er fallegasta fataverslunin sem ég hef heimsótt: þar er hátt til lofts og gulir veggirnir kallast á við dökkbrúnar innréttingarnar. Þegar ég hef litið þar inn hefur yfirleitt verið rólegt í búðinni og afgreiðslufólkið verið afskaplega elskulegt. Hér eru fötin ekki ódýr, en verðið er samt mjög sanngjarnt miðað við gæðin og hér ræður vitaskuld hinn hefðbundni ítalski stíll ríkjum.
Ludovica Mascheroni: Ögn ofar á Via Gesù má finna tískuverslun Ludovica Mascheroni. Fyrirtækið hóf göngu sína sem húsgagnaframleiðandi en bætti við herra- og dömufatnaði árið 2018. Verslunin þeirra er smá en afskaplega falleg og útpæld. Sumar flíkurnar eru alveg hreint framúrskarandi en um leið lágstemmdar – ekta „quiet luxury“. Ég kolféll fyrir dökkbláum jakka frá þeim og man ekki eftir að hafa mátað klæðilegri flík. Ég þarf samt að spara aðeins fyrir kaupunum því hér hleypur verðið á hundruðum þúsunda króna.
Boggi: Stutt er síðan tískuverslanakeðjan Boggi opnaði glæsilega nýja aðalverslun í Mílanó. Fyrir þá sem ekki þekkja Boggi þá mætti kalla þá ítölsku útgáfuna af Brooks Brothers: Fötin eru í fínni kantinum, hvorki of íhaldssöm né sportleg, og hvorki of dýr né ódýr. Nýja búðin er rúmgóð og róleg og sölumennirnir mjög viljugir að hjálpa við valið. Prýðileg jakkaföt kosta hér í kringum 700 evrur.
Duomo di Milano: Óhætt er að mæla með heimsókn í þessa einstöku dómkirkju. Betra er að kaupa aðgangsmiðann á netinu með nokkrum fyrirvara og þarf samt að bíða í röð til að komast inn. Innifalinn í miðaverðinu er aðgangur að litlu safni í næsta húsi, sem er alveg óhætt að sleppa.
Fueguia 1833: Argentínskur ilmhönnuður og lífskúnstner hefur komið sér fyrir hér á besta stað í Mílanó. Það er upplifun að heimsækja búðina og ilmúrvalið er bæði breitt og áhugavert. Ég mæli t.d. með að prófa ilminn sem þróaður var í samráði við Rolls-Royce en 30 ml flaskan kostar 423 evrur, hvorki meira né minna.
La Scala: Hér slær hjarta ítalska óperuheimsins. Hér frumfluttu Puccini, Verdi og Donizetti óperur sínar, og hingað ættu allir óperuunnendur að fara pílagrímsför a.m.k. einu sinni á ævinni. Miðar á skemmtilegustu óperurnar seljast upp marga mánuði fram í tímann en með smá heppni má krækja í afgangsmiða samdægurs.
Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans.