Velta Íslandspósts jókst um 531 milljón á milli ára og velti félagið 7,64 milljörðum króna á síðasta ári. Þá hagnaðist félagið um 187 milljónir króna á síðasta ári.
Eigið fé félagsins er 3,82 milljarðar og EBITDA, afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, nam 823 milljónum króna á síðasta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti en ársskýrsla félagsins var gefin út á aðalfundi þess í dag. Er þetta fimmta árið í röð sem rekstrarafkoma Íslandspósts er jákvæð.
„Niðurstöður skýrslunnar sýna að þrátt fyrir ýmsar áskoranir hafi hagræðing og aukin velta skilað árangri,“ kemur fram í tilkynningunni.
Segir þar jafnframt að stöðugildum félagsins hafi fækkað á milli ára. Voru þau 460 í lok árs 2024 en 472 árið áður.
Þá kemur einnig fram að Íslandspóstur fjármagni alþjónustu að fullu árið 2024. Barst greiðsla frá ríkinu að hluta til í byrjun janúar 2025 og afgangur um miðjan mars 2025. Upphæð alþjónustunnar nam 618 milljónum króna, sem er greiðsla vegna veittrar þjónustu fyrir hönd ríkisins.
„Áframhaldandi fjárfesting í sjálfvirknivæðingu kerfa Póstsins hefur skilað sér í hraðari afgreiðslu erlendra skráðra sendinga. Hraðinn er slíkur að um 95% af slíkum sendingum inn á höfuðborgarsvæðið skila sér innan sólarhrings og yfir 90% á landsbyggðina innan tveggja daga,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Þórhildi Ólöfu Helgudóttir, forstjóra Póstsins, að samkeppnisumhverfi Póstsins hafi breyst hratt. Hlutverk félagsins væri þó óbreytt:
„Að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla vörum, gögnum og upplýsingum til viðskiptavina um allt land og víða veröld,“ sagði Þórhildur.