Comcast NBCUniversal fjárfestir í OZ Sports

Guðjón segir að nýr spennandi kafli sé að byrja hjá …
Guðjón segir að nýr spennandi kafli sé að byrja hjá fyrirtækinu. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Bandaríski fjölmiðla- og tæknirisinn Comcast NBCUniversal, sem á og rekur meðal annars Universal, Sky Sports, NBC og Xfinity, hefur bæst í fjárfestahóp íslenska tæknifyrirtækisins OZ Sports.

OZ Sports hefur sérhæft sig í gervigreind og tölvusjón fyrir íþróttaútsendingar og hefur þróað OZ Smart Stadium, tæknilausn sem er hönnuð fyrir sjálfvirkar íþróttaútsendingar. Kerfið byggist á róbótatækni með gervigreindarstýringu og optískri aðdráttarlinsu, sem gerir að verkum að íþróttaviðburðir eru sendir út í afar miklum gæðum á mun hagkvæmari hátt en áður.

Guðjón Már Guðjónsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir í samtali við Morgunblaðið að með þessu fái OZ einstakt tækifæri til að þróa tækni sína áfram í samstarfi við stærstu fjölmiðla- og íþróttasamtök í heimi og styrkja þannig stöðu sína á alþjóðamarkaði.

Gríðarleg áskorun

Guðjón lýsir því að þróun tölvusjónar og þeirra eigin gervigreindarmódela sé gríðarleg áskorun. „Við ákváðum að lengja þróunarferlið til að fínpússa grunntæknina og ná settum gæðum. Það tók meiri tíma en við bjuggumst við,“ segir Guðjón. „En ávinningurinn verður vonandi þeim mun meiri,“ bætir hann við og brosir.

Eins og Morgunblaðið greindi frá árið 2021 þróaði OZ á þeim tíma lausn til að leyfa fólki að upplifa kappleiki með vinum sínum heima í stofu. Hróp og köll, gleði og sorgir endurómuðu þá í heyrnartólum vinanna, rétt eins og þeir sætu saman á vellinum í eigin persónu. „Í covid-19-faraldrinum kom upp mikil þörf á að nota tölvusjónina okkar í allskonar lausnir, en við stöðvuðum aldrei þróun á sjálfvirkum útsendingum, sem við vorum meðvituð um að tæki lengri tíma. „Covid-19-lausnirnar“ komu sér þó vel fyrir okkur því við fengum um 200 milljónir króna í tekjur af þeim. Þær hjálpuðu okkur að halda annarri þróun gangandi. Það reyndist okkur mikilvægt til að ná á þann stað sem við erum á núna.“

Guðjón segir að sérstaða OZ liggi meðal annars í því að félagið hafi byggt sína eigin gervigreindarlausn frá grunni, og sé því óháð öðrum. „Flest fyrirtæki sem starfa í Evrópu eru að keyra ofan á gervigreindarmódelum annarra fyrirtækja. Öll okkar módel eru búin til af okkur. Þau eru hnitmiðuð, hraðvirk, lítil tauganetsmódel, og sérhæfð í að skilja hvernig boltaíþróttir virka og hvernig þær eru framleiddar fyrir útsendingar.“

Um fjárfestinguna segir Guðjón að hún bæði gefi OZ Sports aukinn trúverðugleika en opni einnig á leið fyrir fyrirtækin að vinna saman. „Markmið Comcast er að komast nær okkur og nýta okkar lausn innan nokkurra eininga samstæðu fyrirtækisins. Íþróttastöðin Sky Sports í Evrópu er til dæmis hluti af henni og bindum við miklar vonir við það samstarf.“

Sky Sports, í samvinnu við ensku úrvalsdeildina í fótbolta, bjó einmitt til það form af útsendingum sem fólk þekkir úr ensku úrvalsdeildinni í dag og aðrar deildir hafa reynt að líkja eftir, eins og Guðjón útskýrir.

Hann segir að OZ Sports sé vel fjármagnað og á næstu misserum verði einblínt á tekjuöflun þar sem félagið sé komið á mikilvægt vaxtarskeið. „Við erum komin í gegnum prufufasann, búin að framleiða nokkur hundruð leiki og fínpússa tæknina. Nú getur markaðssetningin hafist af krafti.“

Spennandi kafli

Guðjón talar um að þar með sé nýr spennandi kafli að byrja hjá fyrirtækinu eftir langt og strangt þróunarferli. „Við vissum í upphafi að það yrði áskorun að geta nýtt róbóta, tölvusjón og tauganet til að láta boltaíþróttadeildir fá alvöru sjálfvirkar útsendingar. En við höfum lært mikið á þessari vegferð. Það er áhugi hjá sjónvarpsstöðvum víða um heim að fá að nýta tæknina til að gera núverandi útsendingar betri. Til dæmis er hægt að staðsetja okkar búnað þar sem erfitt er að koma myndatökumönnum fyrir. Þá er einnig hægt að nota okkar búnað samhliða hefðbundnum mönnuðum myndavélum til að fjölga myndavélum, auka gæði stærri útsendinga en spara kostnað umtalsvert.“

Aðspurður segir Guðjón að framtíðarsýnin sé að innleiða tæknina á öllum stærri boltaíþróttavöllum í heimi.

„Við sjáum fyrir okkur að íþróttaleikvangar um allan heim breytist í snjallvelli. Þá munu bætast við ýmsir notkunarmöguleikar fyrir liðin, eins og til dæmis að vera með gagnvirkar útsendingar og safna notadrjúgum gögnum um leikmenn fyrir þjálfarana og aðra leikgreiningu meðan á leik stendur.“

Spurður að lokum um hvenær búnaðurinn verði kominn í notkun á fyrsta boltavellinum segir Guðjón að það muni gerast síðar á þessu ári í áföngum. „Innleiðing byrjar á þessu ári.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK