First Water lýkur 5,7 milljarða króna hlutafjáraukningu

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water. Morgunblaðið/Eggert

First Water, sem sérhæfir sig í sjálfbæru landeldi á laxi í Þorlákshöfn, hefur lokið hlutafjáraukningu að upphæð 39 milljónir evra, sem samsvarar um 5,7 milljörðum króna.

Hlutafjáraukningin er leidd af núverandi hluthöfum en þar á meðal eru  Stoðir hf., FW Horn slhf., Framherji ehf., Lífeyrissjóður verslunarmanna, Brú lífeyrissjóður, Líra ehf. og LSR.

Kemur þetta fram í tilkynninu frá félaginu í dag.

Jafnframt kemur fram að félagið hafi með þessari aukningu nú sótt alls 161 milljónir evra í hlutafé eða um 24 milljarða króna. Í lok síðasta árs var tilkynnt um 80 milljón evra lánsfjármögnun frá Landsbankanum og Arion Banka eða samtals um 12 milljarða íslenskra króna.

Félagið hefur þannig tryggt sér fjármögnun sem nemur um 35 milljörðum króna og nemur fjárfesting í verkefninu nú yfir 20 milljörðum króna.  Samanlögð fjárfesting í verkefninu er áætluð að muni nema um 825 milljónum evra eða um 120 milljörðum króna.

Í tilkynningu er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra First Water:

„Þessi fjármögnun endurspeglar mikið traust og trú þeirra sem þekkja okkur best – núverandi hluthafa. Hún gerir okkur kleift að halda áfram að fjárfesta í uppbyggingu á starfsemi okkar í Þorlákshöfn og hraða framleiðslu á hágæða útflutningsvöru. Áætlanir okkar varðandi uppbyggingu hafa staðist og við gerum ráð fyrir að fyrsta fasa verkefnisins ljúki á þessu ári.  Við finnum fyrir miklum áhuga á erlendum mörkuðum á hágæða laxi sem framleiddur er fyrir alþjóðlega markaði með nýjustu tækni, í öflugu samstarfi við nærsamfélagið og með sterkri áherslu á ábyrga nýtingu náttúruauðlinda. Umhverfisvernd og strangt gæðaeftirlit eru grunnstoðir í allri starfsemi First Water. Við erum þakklát fyrir þennan öfluga stuðning okkar hluthafa og hlökkum til að nýta tækifærin sem framundan eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK