Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur undanfarið sýnt sterka fylgni við bandaríska markaðinn, sérstaklega Nasdaq, en minni tengingu við evrópska markaði.
„Ef við horfum á síðustu mánuði þá hefur íslenski markaðurinn tekið mjög djúpar lækkanir miðað við evrópska markaði, en fylgt bandaríska markaðinum töluvert nær. Það er í sjálfu sér sérkennilegt, því íslenskur markaður ætti í eðli sínu að vera tengdari Evrópu,“ segir Haraldur Heimisson hjá Arion banka.
Hann bendir á að miklar sveiflur í Bandaríkjunum, sérstaklega tengdar tæknifyrirtækjum, hafi haft áhrif á íslenskan markað. Á meðan hafi evrópskir markaðir, sérstaklega sá þýski og bankageirinn, hækkað mikið á þessu ári. Íslensk félög á markaði hafi hins vegar staðið í stað eða lækkað.
„Markaðurinn hér horfir mikið til Nasdaq og bandarískra geira. Við erum með þrjú félög hér á landi sem skráð hafa verið í Bandaríkjunum og það hefur áhrif á hvernig markaðurinn hagar sér,“ segir Haraldur og bætir við að þetta sýni hvernig markaðsdýnamíkin sé orðin háðari bandarískum væntingum, fremur en evrópskum.
Einn lykilþáttur að mati Haralds er að erlendir fjárfestar hafa ekki komið inn á markaðinn í þeim mæli sem vonast var til síðustu 2-3 árin. „Við bjuggumst við meira flæði að utan þegar við komumst inn í Frontier-vísitölur og sérstaklega FTSE Emerging Markets-vísitöluna. Það vakti miklar væntingar til erlends fjárflæðis en þær hafa ekki ræst.“
Að auki sé dýnamík markaðarins þannig að stærstu eigendur hlutabréfa stunda lítil viðskipti dagsdaglega. „Það þýðir að það þarf oft litla veltu til að hreyfa markaðinn upp og niður,“ útskýrir hann.
Haraldur bendir á að núverandi vaxtastig hafi ekki veitt markaðinum þá gulrót sem vonast var til. „Við erum með um 4% raunstýrivexti, sem hefur verið mjög letjandi fyrir hlutabréfafjárfestingar. Það hefur ekki skapast það flæði inn í verðbréfasjóði sem menn vonuðust eftir.“
Hann segir að þrátt fyrir vonir um breytingar í vaxtastefnu sé markaðurinn fastur í skammtímahugsun. „Við erum að bíða eftir niðurstöðum hjá félögum eins og Alvotech, sem hefur skapað óvissu og hefur mikil áhrif á markaðinn í heild. Það sem skiptir einnig máli næstu vikurnar er að sjá arðgreiðslur koma aftur inn á markaðinn,“ segir Haraldur að lokum.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum í morgun.