Sprotafyrirtækið Heima lauk á dögunum 140 milljón króna fjármögnun sem leidd var af Frumtak Ventures. Auk þeirra fjárfestu englasjóðirnir MGMT Ventures og Tennin í félaginu.
Andri Heiðar Kristinsson, meðeigandi Frumtaks, hefur tekið við sem stjórnarformaður Heima.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Heima.
Þar segir einnig að Heima appið hafi fyrst komið út vorið 2023 og hafa yfir fjörutíu þúsund Íslendingar sótt smáforritið samkvæmt tilkynningunni. „Þúsundir nota Heima í hverjum mánuði til að einfalda heimilishaldið og hvetja krakkana til virkrar þátttöku sem safna stigum fyrir unnin verkefni.“
Um 20% notenda forritsins eru frá Evrópu og þar af er Holland stærsti markaður Heima. Með fjármögnuninni mun Heima teymið stækka og halda í útrás til Evrópu, þar sem Holland verður fyrsti erlendi markaðurinn.
Í tilkynningunni segir að í nóvember 2023 hafi Heima appið orðið vinsælt á einni nóttu í Hollandi í kjölfar umfjöllunar um appið í þarlendu sjónvarpi.
Heima var stofnað í lok árs 2021. Stofnendur eru þau Alma Dóra Ríkarðsdóttir, Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir og Tristan John Frantz. Heima hefur fengið fjölda verðlauna og styrkja og sigraði meðal annars Gulleggið árið 2020, aðeins sex vikum eftir að hugmyndin varð til á servíettu, eins og útskýrt er í tilkynningunni.
Appið hjálpar fjölskyldum að skipta heimilisverkunum á milli sín á einfaldan og skemmtilegan máta. Með Heima geta fjölskyldur haft yfirlit með öllum verkefnum heimilis og fjölskyldu á einum, deilanlegum stað sem hægt er að uppfæra í rauntíma.
Heima gefur fjölskyldumeðlimum stig fyrir hvert unnið verkefni og heldur utan um stigatöflu fjölskyldunnar sem hvetur til aukinnar samvinnu og frumkvæðis innan heimilisins.