Rafmyntageirinn, efnahagsstefna Donalds Trumps og skuldasöfnun ríkja er til umræðu í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna. Gestur þáttarins er Daði Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Visku Digital Assets.
„Ég skora á Ásgeir og hans fólk í Seðlabankanum að skoða rafmyntageirann af því að þessi heimur er að breytast hratt,“ segir Daði og bætir við að það sé einfaldlega þannig að margir seðlabankar í Evrópu séu farnir að gefa geiranum gaum og sá bandaríski einnig.
„Þetta er orðið eitthvað sem er eðlilegur hluti af eignasafni. Við erum ekkert að segja að þetta eigi að vera eina eignin í eignasafninu. En líkt og BlackRock segir, þetta er góður hluti af eignasafninu sem hjálpar við að dreifa eignum,“ segir Daði.
Hann bætir við að Seðlabanki Íslands eigi gull og liggi á um 22 milljörðum af gulli.
„Síðast þegar ég vissi þá var það geymt í Englandi. Og England eða þessi svokallaða vinaþjóð setti á okkur hryðjuverkalög fyrir ekki svo löngu síðan. Ég velti því fyrir mér hvort þessi óháða eign okkar hafi raunverulega verið undir okkar yfirráðum á þeim tímapunkti. Með Bitcoin er ekkert mál að eiga þessa eign og hafa hana undir sínum yfirráðum. Algjörlega óháð öllum öðrum. Það er einn af kostum þessarar eignar. Þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem ætti að skoða meira og taka meiri umræðu um,“ segir Daði.