Umsvif á markaði með íbúðarhúsnæði hafa minnkað talsvert á síðustu mánuðum.
Frá ágúst 2024 til febrúar 2025 hefur nafnverð íbúða á landinu öllu hækkað um 1,7% og lítillega að raunvirði. Hækkun milli ára mældist 8,4% að nafnvirði í febrúar en 4,1% að raunvirði.
Kemur þetta fram í ritinu Fjármálastöðugleiki frá Seðlabankanum sem birt var í dag. Bent er á að talsverð óvissa sé að mati bankans um verðþróun fasteigna á komandi misserum.
Í greiningu bankans er þess jafnframt getið að mikið framboð og minnkandi velta á markaðnum valdi því að sölutími íbúða hefur lengst.
Meðalsölutími eldra húsnæðis hefur lengst úr rúmlega tveimur mánuðum um mitt ár 2024 í þrjá og hálfan mánuð í febrúar 2025. Meðalsölutími nýbygginga hefur hins vegar lengst mjög mikið, úr fimm mánuðum síðasta vor í yfir 14 mánuði í febrúar 2025.