Óttar Guðjónsson hagfræðingur gagnrýnir tilboðið sem liggur fyrir í ÍL-sjóðsmálinu og segir upplýsingagjöf, eða skort á henni, vera mikla vanvirðingu við almenna fjárfesta í landinu.
„Það að kynna tilboðið ekkert fyrir almennum fjárfestum, þá bæði kosti og galla, ásamt því að bjóða smærri fjárfestum ekki að eiga bréfin áfram kjósi þeir svo, finnst mér mikil vanvirðing við almenna fjárfesta í landinu,“ segir Óttar í samtali við ViðskiptaMoggann.
„Þar sem bréfin eru gefin út í 1 krónu einingum þá eru þau útgefin sem hæf fyrir almenna fjárfesta. Það gerir strangari lagakröfur til útgefanda bréfanna og sterkari kröfur um fjárfestavernd en þegar bréf eru seld aðeins til stofnanafjárfesta. Þá skiptir ekki máli þótt almennir fjárfestar séu ef til vill fáir eða eigi ekki stóran hlut, það þarf að tryggja þeim vernd og aðgengi að öllum upplýsingum til að vega og meta það tilboð sem verið er að gera þeim,“ segir Óttar.
Hann bætir við að til viðbótar finnist honum alls ekki að tilboðið til eigenda HFF34 sé hagstætt. Hann segir að það að selja bréfin á 3,57% kröfu og fá annars vegar 25% pening og hins vegar 75% Riks34 á 2,86% kröfu finnist honum ekki gott tilboð.
„Á sama hátt er eigendum HFF44 boðið að selja bréfin sín á 3,17% og fá í staðinn 25% peninga og 75 Riks44 á 2,58%. Bæði þessi tilboð fela í sér reiðufé, sem ber enga vexti, og ríkisskuldabréf á verulega lægri vöxtum en fjárfestar eru að afhenda sín bréf á,“ segir Óttar og bætir við að hann telji hagsmunum þolinmóðra fjárfesta mikið betur borgið með því að eiga bréfin áfram og fá af þeim 3,75% ávöxtum til lokadags.
„Hagsmunir langtímafjárfesta voru líka betur varðir í því frumvarpi sem lagt var fyrir þingið um slit ógjaldfærra opinberra aðila sl. haust,“ segir Óttar.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum í morgun.