Viðskipti eru ávallt persónuleg – þrátt fyrir orð Guðföðurins

Helga Viðarsdóttir, eignandi og sjóðstjóri Spaks Invest hf.
Helga Viðarsdóttir, eignandi og sjóðstjóri Spaks Invest hf. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er ekki persónulegt, þetta eru bara viðskipti. Þessi fræga setning kemur úr (að margra mati) bestu mafíu-kvikmynd sögunnar: Guðföðurnum (The Godfather).

Það er hinn slóttugi Michael Corleone sem segir við bróður sinn orðrétt á frummálinu: „It's not personal, Sonny. It's strictly business.“ Þessi orð eru raunar látin falla – áður en Michael fer til fundar á veitingastað við annan mafíósa, auk lögregluvarðstjóra. Hann skýtur þá síðan báða til bana.

Þessi setning hefur síðan verið notuð á fundum, í samningaviðræðum og í viðskiptalífinu almennt frá því áðurnefnd kvikmynd var frumsýnt 1972. Skilaboðin eru þau að viðskiptaákvarðanir eigi að vera lausar við tilfinningar og óháðar persónum.

Þær eigi aðeins að byggjast á kaldri rökhyggju og hagkvæmni.

Michael Corleone fylgdi kaldri rökhyggju þegar hann skaut annan mafíósa …
Michael Corleone fylgdi kaldri rökhyggju þegar hann skaut annan mafíósa og lögregluvarðstjóra til bana. Wallpapers.com

En raunveruleikinn er samt ekki á þessa vegu. Viðskipti eru ávallt mjög persónuleg. Á bak við hver viðskipti, og hverja undirskrift á samningi, standa einstaklingar – knúnir áfram af metnaði, trausti, samböndum og, já, tilfinningum. Þetta kallast persónulegt innsæi, sem hefur raunar reynst mörgum vel í gegnum tíðina.

Þegar ég legg þá spurningu fyrir fjárfesta mína hjá Spak Invest hvað þeir leggi einna helst áherslu á við val á fjárfestingarkostum (að frátalinni ávöxtun) er það einkum þrennt sem kemur fram í svörum þeirra: Gagnsæi, lausafjárstaða og samskipti.

Ég sjálf legg mesta áherslu á hið síðasttalda; bein og milliliðalaus samskipti. Það er enda svo að Spakur Invest birtir gengi sitt daglega, og hægt er að fjárfesta og innleysa úr sjóðnum hvenær sem er. Þá er einnig hægt að kíkja í kaffi til sjóðstjórans hvenær sem er.

Símtöl og tölvupóstar eru vel þegin og þeim að sjálfsögðu svarað um hæl. Það eru líka þessi persónulegu samskipti, sem vélaraflið getur ekki leyst af hólmi.

Ég leyfi mér því að fullyrða, að á okkar tímum, þar sem gervigreind (AI) tekur yfir æ fleiri þætti í fjárfestingum og viðskiptum, verði mannleg tenging dýrmætari en nokkru sinni fyrr.

Þó að gervigreind geti unnið úr gögnum, gefið innsýn inn í ýmis mál og jafnvel átt samtöl getur hún ekki komið í stað trausts, persónulegs innsæis og þeirrar dýptar sem fylgir raunverulegum mannlegum samskiptum.

Af þessum sökum munu fundir, sýningar og ráðstefnur þar sem fólk mætir í eigin persónu áfram hafa mikið gildi, og jafnvel enn meira en áður.

Þetta á sérstaklega við í greinum þar sem það skiptir máli að máta, snerta og upplifa vörur. Þar getur stafrænn valkostur ekki komið í staðinn fyrir hið persónlega. Þá er það einnig svo að tengslamyndun á slíkum viðburðum skapar tækifæri sem AI-stýrð þjónusta getur ekki endurgert.

Ég spái því að þegar AI heldur áfram að þróast muni þörfin fyrir mannleg tengsl einungis aukast.

Fólk mun ekki láta tæknina taka yfir samtalið með öllu, heldur mun það kjósa viðburði í eigin persónu sem ómissandi vettvang fyrir viðskipti byggð á trausti, samvinnu og þeim ómetanlega krafti sem fylgir mannlegum samskiptum.

Ef við víkjum aftur að Guðföðurnum, þá verður algerlega skýrt, eftir því sem líður á myndina, að bæði Michael og faðir hans Vito Corleone stunda mjög persónuleg viðskipti. Það er það sem gerir þá svo öfluga í sinni grein – mafíustarfsemi.

Veldi er byggt á þeirra eigin persónu og þeirri virðingu – ef ekki ótta – sem þeir njóta.

Fyrir Corleone-fjölskylduna eru viðskipti ávallt persónuleg – það gerir þá sterka. Með þessu er ég ekki að mæla með mafíustarfsemi, heldur aðeins leggja áherslu á að persónulegt innsæi er það sem skiptir sköpum í bæði fjárfestingum og rekstri.

Pist­ill­inn birt­ist fyrst í ViðskiptaMogg­an­um sem kom út í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK