Icelandair innleiðir nú yfir 400 umbótatillögur í rekstri félagsins.
Samkvæmt Boga Nils Bogasyni forstjóra félagsins er þetta hluti af umbreytingarvegferð sem félagið hóf á síðasta ári til þess að bæta rekstur og afkomu félagsins. „Við erum að velta öllum steinum, bæði hvað varðar kostnað og tekjur,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann og bætir við að félagið hafi náð góðum árangri á kostnaðarhliðinni á síðasta ári, þrátt fyrir verðbólgu og talsverðar launahækkanir.
Sem dæmi nefnir hann að snúningstími flugvéla í Keflavík hafi verið styttur. Það stuðli að bættri stundvísi sem hefur bæði áhrif á kostnað og upplifun farþega. Þá sé félagið að fínpússa ýmis atriði varðandi þjónustuframboð. Til að mynda hefur verið ákveðið að hætta að bjóða upp á teppi og kodda í Evrópuflugi enda notkun mun minni á styttri leiðum.
„Við erum ekki að gera neinar grundvallarbreytingar á þjónustunni hjá okkur, heldur fyrst og fremst að skoða hvaða þjónustuþættir skila virði til viðskiptavina og á hverjum er minni þörf,“ segir Bogi.
Að hans sögn hefur félagið endursamið við marga þjónustuaðila í hagræðingarskyni, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Allar deildir félagsins hafa tekið þátt í þessari umbreytingarvegferð sem er komin til að vera.
Spurður hvort til standi að fækka starfsfólki segir Bogi að uppsagnir hafi þegar átt sér stað í maí í fyrra, í tengslum við endurskipulagningu í stoðdeildum, sem snerti tæplega 100 störf. Frekari aðgerðir séu ekki fyrirhugaðar, hins vegar séu mannabreytingar alltaf hluti af rekstri fyrirtækis eins og Icelandair og endurspegli einnig það síbreytilega umhverfi sem félagið starfi í.
Bogi segir að nú þegar hafi náðst fram hagræðing sem nemur yfir 20 milljónum dollara í bættri afkomu á ársgrundvelli. Markmiðið sé að ná allt að 70 milljónum dollara í slíkan ávinning í lok þessa árs og félagið vinnur markvisst að því að hámarka bæði tekjur og lækka kostnað.
„Við erum bjartsýn,“ segir Bogi og bendir á að félagið hafi þegar gefið út afkomuspá í lok janúar. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir rekstrarhagnaði að fjárhæð 40-60 milljónir dollara.
Bogi bendir á að afkoma félagsins hafi ekki verið nægilega góð síðustu sjö ár. „En nú er áhersla okkar fyrst og fremst á að styrkja reksturinn og skila auknu virði til hluthafa.“
Í ávarpi sínu á aðalfundi félagsins sagði Bogi að það væru þrjár leiðir fyrir flugfélög til að vaxa. Það er í gegnum ytri vöxt, með stækkun á leiðakerfi eða í gegnum samstarfssamninga við önnur flugfélög.
Spurður hvort Icelandair horfi til ytri vaxtar svarar Bogi því neitandi.
„Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að styrkja og þróa leiðakerfið og auka samstarf við önnur flugfélög. Með því tengjumst við inn í öflug leiðakerfi og viðskiptavinahóp samstarfsaðila okkar og getum boðið viðskiptavinum okkar enn fjölbreyttari ferðamöguleika,“ segir Bogi og bætir við að mörg spennandi plön séu í farvatninu hjá flugfélaginu.
Þá nefnir hann að Emirates, Southwest, Turkish Airlines og fleiri samstarfsflugfélög efli leiðakerfið enn frekar. Þannig muni opnast þægilegar tengingar um Istanbúl áfram með Turkish Airlines til Mið-Austurlanda og Asíu þegar Icelandair hefur flug þangað í haust. Hann segir mikil tækifæri felast í því að tengjast betur við ört vaxandi markaði í Mið-Austurlöndum og Asíu.
Bogi leggur áherslu á mikilvægi samkeppnishæfni, bæði gagnvart öðrum flugfélögum og einnig samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar.
„Við erum að bæta við Airbus-vélum og það gengur mjög vel,“ segir Bogi. Tvær slíkar vélar bætist við í flotann fyrir sumarið og verði þær því samtals fjórar. Þessar nýju hagkvæmu flugvélar skapi spennandi framtíðartækifæri sem bæði styrki leiðakerfi Icelandair og Ísland sem tengimiðstöð í flugi.
„Ég er þess fullviss að skýrar áherslur okkar munu styrkja stöðu félagsins enn frekar, bæta arðsemi og gera okkur kleift að vaxa með ábyrgum hætti og nýta þau tækifæri sem blasa við,“ segir Bogi að lokum.
Greinina í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum.