Rekstrartekjur Ísfélagsins á síðasta ári námu 23,6 milljörðum króna, rekstrarhagnaður nam 4,5 milljörðum króna, hagnaður eftir skatta var 2,2 milljarðar króna og EBITDA 6,6 milljarðar króna. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins.
Heildareignir Ísfélagsins nema 107,5 milljörðum króna, fastafjármunir félagsins eru 94,4 milljarðar króna og veltufjármunir 13,1 milljarður króna.
Eigið fé í lok árs 2024 var 76,1 milljarður króna og skuldir og skuldbindingar 31,4 milljarðar króna.
Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 188,6 milljónir bandaríkjadala í lok ársins, en voru 201,3 milljónir dala í lok árs 2023. Skammtímaskuldir voru 38,7 milljónir dala í lok árs 2024, en í lok árs 2023 voru þær 48,9 milljónir dala. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 90,7 milljónir dala í lok ársins 2024 en voru í árslok 2023, 98,5 milljónir dala.
Haft er eftir Stefáni Friðrikssyni forstjóra Ísfélagsins í tilkynningu að töluverður samdráttur hafi verið í rekstri félagsins á árinu 2024 sem skýrist að mestu leyti vegna aflabrests í loðnu á síðastliðnum vetri og lélegrar makrílveiði í sumar.
„Nauðsynlegt er að rannsaka betur loðnustofninn sem er svo mikilvægur í vistkerfi hafsins hér við land og reyna að fá svör við því hvers vegna hann skilar sér ekki betur af fjalli ef svo má að orði komast. Horfurnar eru aftur á móti góðar fyrir næstu vetrarvertíð og miklar líkur á upphafskvóta en sagan segir okkur, því miður, að þar sé ekki á vísan að róa. Veiðar og vinnsla á síld gengu vel á árinu. Góð eftirspurn var á mörkuðum fyrir afurðir félagsins og verð á frosnum og ferskum afurðum hækkaði. Verð á fiskimjöli var ágætt á árinu en verð á lýsi lækkaði. Stjórnvöld hafa lagt fram frumvarp um gríðarlega hækkun á veiðigjöldum þrátt fyrir að ljóst sé að afkoma greinarinnar megi ekki við frekari kostnaðarhækkunum þegar tekið er tillit til nauðsynlegra fjárfestinga og eðlilegrar afkomu greinarinnar. Engar tilraunir hafa verið gerðar til að skoða áhrif þessara skattahækkana á atvinnugreinina og samkeppnishæfni hennar. Hærri skattar á fyrirtæki minnka möguleika þeirra á að fjárfesta í betri rekstri og draga úr getu fyrirtækja til að gera betur. Þarna eru því áform að slátra mjólkurkúnni,” er haft eftir Stefáni.