Ekki má mikið út af bregða

Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjármálastefnu sína. Hagfræðingur segir að fróðlegt …
Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjármálastefnu sína. Hagfræðingur segir að fróðlegt verði að sjá áætlunina sjálfa. mbl.is/Ólafur Árdal

Það má ekki mikið út af bregða í hagvaxtarþróuninni svo að markmiðið um lækkun skuldahlutfallsins náist með þeim hætti sem ríkisstjórnin leggur upp með í fjármálastefnu sinni. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Hann segir að miðað við fjármálastefnuna eigi að fara fetið í lækkun skuldahlutfalls ríkissjóðs. Til að mynda sé einungis gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði jákvæð um 0,3% af vergri landsframleiðslu eftir fimm ár, sem jafngildir um það bil 15 milljörðum á verðlagi dagsins í dag. Stór hluti lækkunar skuldahlutfallsins kemur því til vegna stækkunar nefnarans í hlutfallinu, sem sagt hagvaxtar.

„Afkomubatinn kemur svo sýnist mér fyrst og fremst til vegna þess að tekjur ríkissjóðs aukast hraðar en skuldir að raunvirði,“ segir Jón Bjarki og bendir á að þar sé einnig tekið fram að ekki eigi að hækka álögur á einstaklinga, en virðisaukaskattur og tekjuskattur eru tveir stærstu skattstofnar ríkissjóðs.

„Fyrir utan mögulega hækkun á sértækari sköttum eru því hagvöxtur og verðbólga helstu drifkraftar aukinna skatttekna. Það er að mínu mati jákvætt svo langt sem það nær að ekki sé gert ráð fyrir umfangsmeiri skattheimtu enda skattbyrði heimila og fyrirtækja hér á landi fremur há í alþjóðlegum samanburði,“ segir Jón Bjarki.

Hann segir að stefnan sé nokkuð metnaðarfull og jákvætt að sjá haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var á síðasta áratug að hafa tiltölulega skýr markmið til meðallangs tíma.

„Það dregur þó aðeins úr trúverðugleikanum að gert er ráð fyrir að minni útgjaldavöxtur á fimm ára gildistíma hennar sé afturhlaðinn og vöxtur útgjalda á þessu ári og hinu næsta mun eftir sem áður verða þó nokkur.“

Hann bætir við að það muni skýrist í fjármálaáætlun sem birt verður á næstunni hvernig ætlunin sé að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í fjármálastefnunni.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig uppleggið í henni rímar við ýmis metnaðarfull áform sem sett voru fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í lok síðasta árs,“ segir Jón Bjarki að lokum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK