Þann 20.mars síðastliðinn var Kanadísk-íslenska viðskiptaráðið stofnað. Ráðið hefur það að markmiði að efla og viðhalda viðskiptatengslum á milli Íslands og Kanada auk þess að stuðla að nánari samvinnu á sviðum menntunar, menningar og viðskipta á milli landanna.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá ráðinu.
Á stofnfundinn mættu tæplega 50 manns til að taka þátt í stofnun ráðsins. Ársæll Harðarsson, formaður stjórnar Millilandaráðanna, sagði við tækifærið; „að ljóst væri að umtalsverður áhugi sé á að dýpka tengslin milli Íslands og Kanada“.
Á fundinum fór fram kosning stjórnar, sem mun leiða starf ráðsins á komandi árum og var Guðmundur Óskarsson hjá Kerecis kjörinn formaður.