Tímamót í sögu Eyris Invest

Feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson.
Feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyrir Invest hf. fagnar 25 ára afmæli sínu á þessu ári og stendur á merkum tímamótum. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær, þann 27. mars 2025, samþykktu allir hluthafar félagsins tillögu stjórnar um lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa. Tillagan var í samræmi við niðurstöðu valfrjáls tilboðs til hluthafa um þátttöku í fyrirhugaðri hlutafjárlækkun og nam þátttaka hluthafa í hlutafjárlækkuninni um 91% af útistandandi hlutafé. Allir hluthafar félagsins kusu að taka þátt í tilboðinu að hluta eða öllu leyti.

Eyrir Invest var stofnað árið 2000 af Þórði Magnússyni og Árna Oddi Þórðarsyni. Síðar bættust við aðrir hluthafar, þar á meðal fjársterkir einkafjárfestar og stofnanafjárfestar. Eftir hlutafjárlækkunina verða stofnendur Eyris Invest einu hluthafar félagsins með jafnan eignarhlut, Þórður Magnússon í eigin nafni og Árni Oddur Þórðarson í gegnum eignarhaldsfélögin Sex álnir ehf. og 12 Fet ehf. sem eru að fullu í hans eigu.  

„Við fögnum niðurstöðu aðalfundar sem við teljum afar farsæla lausn fyrir alla hluthafa. Þetta eru mikilvæg tímamót í sögu Eyris Invest. Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka hluthöfum og samstarfsaðilum fyrir gott og farsælt samstarf á undanförnum misserum. Við hlökkum til að fylgjast með félaginu á komandi árum.“ segir Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Eyris Invest.

Endurgjald lækkunarinnar er í formi hlutabréfa í JBT Marel Corporation og Fræ Capital hf., í hlutfalli við eignarhlut í Eyri Invest. Félagið afhendir hluthöfum 3.032.714 hluti í JBT Marel og mun að  loknu uppgjöri eiga 284.948 hluti sem samsvarar 0,55% eignarhlut í JBT Marel.  Eyrir Invest gerði upp allar skuldbindingar við lánveitendur í janúar og er skuldlaust.

Eyrir Invest stofnaði félagið Fræ Capital í þeim tilgangi að taka yfir sprotastarfsemi félagsins og einfalda uppgjör við hluthafa þess. Fræ Capital fer nú með eignarhluti í óskráðum félögum og sjóðum sem áður voru í eigu Eyris. Fræ Capital er vel fjármagnað og í sterkri stöðu til framtíðar.

Eyrir Invest var kjölfestufjárfestir í Marel frá árinu 2005 og hafði lykiláhrif á vöxt og þróun félagsins. Á þeim tíma jukust tekjur Marel úr 129 milljónum evra í yfir 1.700 milljónir evra og starfsmannafjöldi úr 800 í yfir 7.000 í yfir 30 löndum. Á sama tímabili skilaði Marel ávöxtun til hluthafa sem var sambærileg við bestu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu. Samruni Marel og JBT var í samræmi við langtímasýn Eyris Invest fyrir áframhaldandi vöxt Marel. Sameinað félag JBT Marel er leiðandi alþjóðlegur framleiðandi á búnaði, samþættri tækni og þjónustu fyrir matvæla- og drykkjarvöruiðnaðinn.

Stjórn Eyris Invest var endurkjörin á aðalfundi en í kjölfar uppgjörs við fráfarandi hluthafa verður boðað til hluthafafundar þar sem ný stjórn tekur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK