Bandaríska lyfjafyrirtækið Mallinckrodt, sem stýrt er af Sigurði Óla Ólafssyni, og hyggst sameinast öðru bandarísku lyfjafyrirtæki, Endo, gekk í gegnum erfiða tíma frá 2018-2019 og fór í gegnum greiðslustöðvun og fjárhagslega endurskipulagningu frá 2020-2022.
Spurður um ástæður erfiðleikanna segir Sigurður að fyrirtækið hafi þurft að leysa úr ótal lögsóknum vegna sölu á ópíóíðalyfjum sem fyrirtækið framleiðir. Ópíóíðar eru sterk verkjalyf sem geta verið lífshættuleg í stórum skömmtum og kunna að leiða til alvarlegrar fíknar. En jafnframt eru þetta mikilvæg lyf í meðferð við verkjum, eins og Sigurður útskýrir, og nauðsynlegt er að þau séu notuð á réttan hátt.
Mallinckrodt framleiðir ennþá ópíóíða að sögn Sigurðar, en í töluvert minni mæli en áður og jafnframt með víðtæku eftirlitskerfi til að fylgja því eftir að lyfin séu rétt notuð. „Það komu þúsundir lögsókna á fyrirtækið. Hin fjárhagslega endurskipulagning var hluti af því að leysa úr þeim, og var gerð áður en ég kom til félagsins. Endurskipulagningin hafði það meginmarkmið að leysa úr lögsóknunum en seinni endurskipulagningin var til að styrkja efnahagsreikninginn.“
Niðurstaðan varð hundruð milljóna dala í sektir og bætur. „Þetta er núna að baki. Það eru engar útistandandi lögsóknir á fyrirtækið í dag.“
Sigurður segir að ekki hefði verið ráðist í sameiningu Mallinckrodt og Endo nema vegna þess að bæði fyrirtækin framleiði góð lyf sem eru lífsnauðsynleg fyrir sjúklinga. „Það er vitað að lyfin þurfa að komast til sjúklinga. Það er grunnurinn að þessu öllu, að vita að maður er að vinna að mjög góðum málstað. Ef við endurskipuleggjum ekki fyrirtækið og komum því á réttan kjöl, þá gætu sjúklingar liðið fyrir skort á lyfjum. Þó að peningar og lögsóknir séu þarna í bakgrunni er það líðan sjúklinga sem mestu máli skiptir, að þeim farnist betur í dag en í gær.“
Forstjórinn ítrekar að starfsfólkið skipti öllu máli í svona uppbyggingu. „Ég hef ráðið inn mikið af góðu fólki til Mallinckrodt, fólki sem ég þekkti ekki áður, fyrir utan eina samstarfskonu sem var með mér hjá gamla Actavis, Henriette Nielsen. Það er mjög nauðsynlegt að hafa gott teymi með sér þegar maður er að keyra í raun tvö stór verkefni á sama tíma. Fyrirtækið má ekki missa taktinn þó svo að verið sé að endurskipuleggja. Lyfin þurfa að komast til sjúklinganna. Það hefði ekki gengið að halda þessu gangandi nema með því að hafa besta fólkið í lyfjabransanum með í liði.“
Spurður nánar um sameiningarferlið segir Sigurður að samkeppniseftirlitið í Bandaríkjunum muni vafalítið taka sér nokkra mánuði í að fara yfir málið. „Við sögðum í okkar tilkynningu að við byggjumst við að málið gengi í gegn á seinni hluta þessa árs. Fram að því vinnum við undirbúningsvinnu.“
Heildarvirði (e. enterprise value) sameinaðs félags er metið á 6,7 milljarða dollara, eða tæplega 900 milljarða króna. Samkomulagið felur í sér að hluthafar Endo fá 80 milljónir dala í reiðufé, eða um 10,7 milljarða króna, og 49,9% eignarhlut í sameinuðu félagi. Hluthafar Mallinckrodt munu því eiga ráðandi hlut í félaginu.