Ítarleg viðskiptaáætlun liggur fyrir

Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar segir viðræður í gangi við …
Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar segir viðræður í gangi við Símann um mögulega heildsölu, einnig óformleg samtöl við eftirlitsaðila. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Næsta haust mun fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn taka við sýningum leikja í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, enska boltanum svokölluðum, af Símanum sem hefur haft sýningarréttinn undanfarin ár.

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að Sýn greiði yfir 24 milljónir evra fyrir þriggja ára samning, eða meira en 3,5 milljarða króna.

Til samanburðar má geta þess að markaðsvirði Sýnar í Kauphöllinni er 7,5 milljarðar króna, eða rúmlega tvöfalt verð þessarar einu vöru.

María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, sagði í samtali við ViðskiptaMoggann á dögunum að þrátt fyrir vinsældir enska boltans væri verðið á sýningarréttinum orðið þess eðlis að varan stæði ekki undir sér.

Þá sagði hún að jákvæð rekstrarleg áhrif af enska boltanum væru ofmetin. Boltinn styddi vissulega við fjarskiptasölu en ekki nógu mikið til að svara kostnaði að mati Símans. Til að mynda hafi internettengingum hjá Símanum aðeins fjölgað um 1.200 fyrsta árið eftir að fyrirtækið fékk sýningarréttinn árið 2019.

Leikur lykilhlutverk

Í síðustu ársskýrslu Sýnar er getið um enska boltann í pistli Herdísar Drafnar Fjeldsted, forstjóra fyrirtækisins, og Hákonar Stefánssonar stjórnarformanns. Þar segja þau að enski boltinn leiki lykilhlutverk á þessu ári á einstaklingsmarkaði.

Má leiða að því getum að Sýn sjái fyrir sér að geta lokkað fjölda manns yfir í fjarskiptaviðskipti með því að selja fjarskipti í vöndli með enska boltanum.

Hæstaréttardómur, sem staðfesti þann 26. febrúar sl. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli vegna enska boltans um að Síminn hefði brotið gegn sátt sem fyrirtækið gerði við stofnunina, gæti þó flækt málið. Var Símanum gert að greiða 400 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna þessa.

Á vef Samkeppniseftirlitsins segir að brot Símans hafi falist í því að bæta sjónvarpsstöðinni Símanum Sport með enska boltanum við svonefndan Heimilispakka um leið og fyrirtækið hækkaði verð fyrir áskrift að pakkanum. „Á þessum tíma voru áskrifendur Heimilispakkans á fjórða tug þúsunda og lýsti forstjóri Símans þessari samtvinnun á þjónustu fyrirtækisins þannig að með henni fengi það „40 þúsund áskrifendur strax frá fyrsta degi“. Áskrifendur Heimilispakkans gátu ekki afþakkað sjónvarpsstöðina nema segja upp áskrift að pakkanum, en þurftu þá að greiða mun hærra verð fyrir þá fjarskiptaþjónustu sem þeir höfðu áður fengið með honum. Taldi Samkeppniseftirlitið í ákvörðun nr. 25/2020 að í þessu hefði falist alvarlegt brot Símans og var sú niðurstaða staðfest í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2020. Hefur Hæstiréttur nú staðfest þá niðurstöðu.

Gátu ekki hafnað

ViðskiptaMogginn leitaði svara frá Herdísi sem svaraði skriflega:

Þið sögðuð í síðustu ársskýrslu að endurkoma enska boltans leiki lykilhlutverk á þessu ári á einstaklingsmarkaði. Nú hefur Hæstiréttur nýlega dæmt í máli enska boltans hjá Símanum þar sem segir að ekki megi vöndla boltanum með fjarskiptum – nema þá í nýjum vöndlum, þ.e. ekki bæta í vöndla sem búið er að selja til viðskiptavina.

„Þetta er ekki alveg rétt túlkun á dómi Hæstaréttar. Hæstiréttur féllst á með Samkeppniseftirlitinu að aðgerðir Símans hf. hefðu falið í sér brot gegn 3. gr. sáttarinnar frá 15. apríl 2015 þar sem áskrifendur Heimilispakkans áttu þess ekki kost að hafna aðgangi að sjónvarpsrásinni Síminn Sport sérstaklega og halda öðrum þjónustuþáttum, bæði fjarskiptaþjónustu og annarri sjónvarpsþjónustu, nema með því að segja upp áskriftinni. Hefðu kaup þeirra á stökum þjónustuþáttum óhjákvæmilega haft umtalsverða hækkun á verði í för með sér. Þessi viðskiptakjör Símans hf. hefðu falið í sér að viðskiptavinir hans á einu sviði keyptu eða fengju þjónustu hans á öðru sviði gegn verði sem jafna mætti til skilyrðis um að kaupa þjónustuna saman.“

Mér skilst að þið hafið séð tækifæri í að fá þúsundir áskrifenda í fjarskipti til ykkar með þessari aðferð og þannig að búa til viðskipti úr fjárfestingunni. Spurningin er því, hvernig ætlið þið að vöndla þessu með fjarskiptavörum í ljósi dómsins?

„Dómur Hæstaréttar hefur verið ítarlega greindur, sem og sátt Sýnar við Samkeppniseftirlitið. Hvorki í dóminum né sáttinni er lagt bann við að vöndla saman fjarskiptum og mikilvægum sjónvarpsrásum. Nákvæm samsetning á vöndlum með enska boltanum er í vörumótum og tekið verður fullt tillit til þeirra leiðbeininga sem er að finna í dómi Hæstaréttar og sátt Sýnar við Samkeppniseftirlitið.“

Hvernig hyggist þið gera ykkur mat úr vörunni – hvert er „business case-ið“? María Björk forstjóri Símans sagði nýlega að jákvæðu rekstrarlegu áhrifin af enska boltanum væru ofmetin og internettengingum hjá Símanum hefði einungis fjölgað um 1.200 fyrsta árið eftir að Síminn fékk réttinn árið 2019.

„Ítarleg viðskiptaáætlun liggur til grundvallar, en eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að upplýsa um einstök atriði hennar nema á réttum vettvangi í ljósi þess að Sýn er félag sem er skráð í kauphöll, auk þess sem viðskiptaáætlunin geymir viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar.“

Hver er eftirspurnin eftir þessari vöru í dag – er hún jafnmikil, minni eða meiri en verið hefur síðustu ár?

„Við höfum enga ástæðu til að ætla að spurn eftir vörunni sé minni en verið hefur undanfarin ár.“

Eru forsendur fyrir kaupunum á boltanum ekki brostnar með þessum dómi?

„Alls ekki, við munum einfaldlega fylgja þeim leiðbeiningum sem þar er að finna, sem eru lítið íþyngjandi þegar kemur að útfærslu á vöruframboði okkar.“

Hvert var kaupverðið á sýningarréttinum?

„Það er trúnaðarmál.“

Hvað gerið þið ráð fyrir miklum viðbótarkostnaði við útsendingarnar?

„Það eru viðskiptalega viðkvæmar upplýsingar, sem eru hluti af viðskiptaáætlun vegna enska boltans.“

Hvað gerið þið ráð fyrir að geta náð inn miklum tekjum í beinu sambandi við enska boltann?

„Það eru viðskiptalega viðkvæmar upplýsingar, sem eru hluti af viðskiptaáætlun vegna enska boltans.“

Eru einhver uppsagnarákvæði í samningnum – þ.e. getið þið losað ykkur út úr honum ef ykkur líst ekki á málið eins og það lítur út núna?

„Við erum bundin trúnaði við EPL (English Premier League – Innsk. blm.) varðandi einstök ákvæði samningsins, auk þess sem við sjáum engan hag í að losa okkur út úr samningnum. Þvert á móti veitir hann okkur margvíslega möguleika til að styrkja stöðu okkar á einstaklingsmarkaði.“

Einnig væri gaman að vita hvort þið munið selja enska boltann í heildsölu til Símans (og/eða annarra fyrirtækja) þannig að áskrifendur sjónvarpsþjónustu Símans geti horft á boltann.

„Við eigum í viðræðum við Símann um möguleika þeirra á að selja enska boltann í heildsölu. Hvernig sem þeim viðræðum lyktar munum við gæta að þeim lögum og reglum sem um slíkt gilda og höfum við átt óformleg samtöl við eftirlitsaðila í því skyni.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK