Lára Herborg Ólafsdóttir, lögmaður á Lex lögmannsstofu og aðjunkt við lagadeild HR, segir það mikinn ágalla í gildandi lögum að einstaklingum og lögaðilum sem kæra til tiltekinna kærunefnda kunni í framhaldinu vera stefnt fyrir dómstóla til að svara fyrir úrlausnir kærunefnda sem taka ekki sjálfar til varna. Slík tilhögun hafi í för með sér mikinn kostnað fyrir aðila í slíkri stöðu auk þess sem íslenska ríkið hafi ekki forræði á því hvernig málsvörnum sé háttað.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Rekstur LEX hefur gengið mjög vel og árið í fyrra kom vel út. Ein helsta áskorunin undanfarið hefur verið að laga starfsemina að breytilegu efnahags- og tækniumhverfi.
Það er mikill hraði á sama tíma og við sjáum síaukna þörf fyrir meiri sérhæfingu á mismunandi sviðum, sem gerir þekkingaruppbyggingu hjá okkur að lykilverkefni. Þetta eru áskoranir sem krefjast skýrari framtíðarsýnar. Þetta er í senn krefjandi og spennandi því það ýtir okkur í að endurskoða fyrri framkvæmd og styrkja stoðir rekstrarins til lengri tíma.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Ég fylgist vel með því sem er að gerast í þeim málaflokkum sem ég hrærist í og má því segja að ég sé í stöðugri endurmenntun.
Mest læri ég þó af samtali og samstarfi við fólk úr mismunandi geirum sem mér hefur gefist tækifæri til að gera undanfarin ár. Slíkt veitir mér mikinn innblástur og að eiga í góðum rökræðum getur verið mikið orkuskot.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Nú er töluvert á minni könnu og þar á meðal umfangsmikil verktaka- og útboðsmál auk nokkurs fjölda viðamikilla verkefna er varða net- og upplýsingaöryggi. Ég er svo á leið til San Diego á stóra lögfræðiráðstefnu í maí en ég hef ekki farið til Kaliforníu síðan ég bjó þar fyrir átta árum.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Lög og gervigreind í Hörpu sem lagadeild HR, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið og Bentt stóðu að, afar áhugaverð og skemmtileg ráðstefna. Það er ýmislegt á döfinni hjá lagadeild Háskólans í Reykjavík á komandi misserum sem vert er að fylgjast með.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ég hef lesið margar bækur sem oft skilja eitthvað eftir sig en bókin sem ég þreytist ekki á að mæla með er eftir sænska höfundinn Kay Pollak og heitir því lýsandi nafni „Að velja gleði“. Hún fjallar um það hvernig þú einn berð ábyrgð á eigin hamingju.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Ég er áhugamanneskja um heilbrigt líferni og hlusta mikið á heilsutengd hlaðvörp. Ég hreyfi mig eins og tími gefst og svo fylgist ég vel með svefninum eftir að ég fékk Oura-hring.
Ég er fylgjandi því að einstaklingar taki ábyrgð á eigin heilsu og finnst mikilvægt að hið opinbera leggi ekki stein í götu aðila sem vilja bjóða upp á nýjar lausnir í þeim efnum líkt og raunin hefur verið að undanförnu.
Ef einn miðlægur aðili á að veita nánast allar upplýsingar um heilsu, og aðgangur að honum er bæði stýrður og takmarkaður, gefur augaleið að slíkt getur bitnað bæði á einstaklingum og síðar meir á kerfinu sjálfu, hafi fólk ekki fjölbreytt úrræði til að takast á við heilsutengdar áskoranir.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Þegar stórt er spurt. Það væri þá á einhverjum allt öðrum vettvangi – en með sömu grunnsjónarmiðin að leiðarljósi. Starf þar sem ég gæti haft raunveruleg áhrif, gert gagn og ekki væri verra ef það væri smá hasar og læti af og til, ég þrífst best í slíku.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Mig langar að segja einkaflugmanninn til að prófa eitthvað nýtt og vinna bug á flughræðslu í leiðinni. Líklegra væri þó að ég myndi skrá mig í hagfræði eða eðlisfræði.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?
Það mætti eflaust tína ýmislegt til ef rýnt er í lagasafnið. Mér þykir það t.d. mikill ágalli á gildandi lögum að einstaklingum og lögaðilum sem kæra til tiltekinna kærunefnda á borð við kærunefnd útboðsmála o.fl., kann í framhaldinu að verða stefnt fyrir dómstóla til að taka til varna fyrir kærunefndir sem lögum samkvæmt eiga ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn slíkra mála.
Þessi tilhögun gerir það að verkum að sá er leitar á náðir slíkra nefnda getur borið af því mikinn kostnað og verið honum íþyngjandi með ýmsum hætti. Þá orkar það tvímælis að varnir fyrir dómstólum vegna úrlausna slíkra nefnda íslenska ríkisins sé þannig falið „einhverjum úti í bæ“ sem getur í raun fallist á að ógilda úrskurði slíkra úrlausnaraðila án þess að kærunefndir eða ríkisvaldið fái nokkru um það ráðið.