Lögráða verða menn 18 ára. Ákvæði þess efnis er nú í 1. gr. núgildandi lögræðislaga. Þar kemur einnig fram að lögráða maður sé bæði sjálfráða og fjárráða. Skipting lögræðis í sjálfræði og fjárræði hefur í dag fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að lögræðissviptingum sem geta snúið annaðhvort að sjálfræði eða fjárræði eða hvoru tveggja í einu.
Foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, og þeir sem barni koma í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga og lögum um vernd barna og ungmenna.
Í 3. gr. núgildandi barnaverndarlaga kemur fram að með börnum í þeim lögum sé átt við þá sem eru yngri en 18 ára. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálanum), sem löggiltur var hér á landi með lögum 19/2013, er barn skilgreint sem einstaklingur undir 18 ára aldri.
Í lögræðislögum nr. 68/1984, sem voru í gildi árið 1989, var þetta tímamark ekki jafn afdráttarlaust. Þar var kveðið á um að maður væri sjálfráða 16 ára en fjárráða 18 ára en að sá sem væri sjálfráða og fjárráða væri lögráða. Munurinn á sjálfræði og fjárræði var sá að sjálfráða maður réði einn öðru en fé sínu en fjárráða maður réði einn fé sínu. Þessar sömu skilgreiningar koma enn fram í núgildandi lögræðislögum.
Munurinn er að í eldri lögunum fóru menn að jafnaði í gegnum tímabil frá 16 til 18 ára aldurs þar sem þeir voru sjálfráða en ekki fjárráða en í dag verða menn bæði sjálfráða og fjárráða og þannig lögráða í einu lagi við 18 ára aldur. Aðeins reynir á muninn á sjálfræði og fjárræði við sviptingu annars hvors sem gerist yfirleitt vegna einhvers konar heilsubrests eða annarra mjög alvarlegra aðstæðna.
Í lögum nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, sem voru í gildi árið 1989, var kveðið á um það að með börnum samkvæmt þeim lögum væri átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs, en ungmenni væru unglingar á aldursskeiði 16 til 18 ára.
Í núgildandi ákvæði 202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 er það gert refsivert að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára. Er það þetta ákvæði og sá aldur sem átt er við þegar rætt er um samræðisaldur í daglegu tali.
Fram til ársins 2007 var þessi aldur 14 ár en var þá hækkaður til meira samræmis við það sem gildir annars staðar á Norðurlöndum. Í ákvæðinu er tekið fram að lækka megi refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
Sumir geta staldrað lengi við á þroskastigi en svo kemur að því fyrr eða síðar að aldurinn er ekki lengur nógu svipaður til að lækka megi refsingu eða láta hana niður falla.
Í almennum hegningarlögum eins og þau eru í dag er það gert refsivert að hafa samræði eða önnur kynferðismök við skjólstæðing í trúnaðarsambandi sé skjólstæðingurinn yngri en 18 ára. Jafnframt er kveðið á um það að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn á aldrinum 15, 16 eða 17 ára sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis skuli sæta fangelsi.
Ákvæði almennra hegningarlaga voru með öðru sniði árið 1989. Þar sagði í ákvæði þágildandi 201. gr.: „Ef maður hefur samræði við stúlku, yngri en 18 ára, sem er kjördóttir hans eða fósturdóttir, eða honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum.“ Þessu var breytt árið 1992 og upp frá því hefur ekki skipt máli hvers kyns gerandi og þolandi eru.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.