Þegar samruni bandarísku lyfjafyrirtækjanna Mallinckrodt og Endo fæst samþykktur verður sameinuðu fyrirtæki skipt í tvennt að sögn forstjóra Mallinckrodt, Sigurðar Óla Ólafssonar.
„Við ætlum að mynda tvö fyrirtæki. Annað á að vera frumlyfjafyrirtæki sem býður upp á einkaleyfisvarin lyf, og hitt samheitalyfjafyrirtæki. Þessi uppskipting verður mesta áskorunin þegar sameiningin hefur verið samþykkt og er um garð gengin.“
Hann segir að ein af ástæðunum fyrir því að skipta eigi fyrirtækjunum upp sé að ólíkir fjárfestar fjárfesti í frumlyfjafyrirtækjum annars vegar og samheitalyfjafyrirtækjum hins vegar. „Til að finna bestu framtíð fyrir fyrirtækið teljum við réttast að skipta því upp og búa til tvö sjálfstæð fyrirtæki sem síðan geta vaxið og dafnað.“
Samheitalyfjafyrirtækið verður þannig með 1,7 milljarða dala ársveltu og mun starfa eingöngu á Bandaríkjamarkaði. Félagið mun að sögn Sigurðar bjóða upp á lyfjaefni, innrennslislyf, töflur og hylki. Frumlyfjafyrirtækið verður með stærri hóp sölumanna á bak við sig. „Þetta verða tvö mjög ólík lyfjafyrirtæki. Frumlyfjafyrirtækið verður móðurfélag og sótt verður um skráningu á því á hlutabréfamarkað.“
Reuters-fréttastofan hafði eftir Sigurði í frétt um fyrirhugaða sameiningu að auknir tollar á útlenskar vörur í Bandaríkjunum gætu falið í sér tækifæri fyrir fyrirtækið.
„Ég myndi ekki segja að tollarnir væru jákvæðir fyrir okkar rekstur en þeir eru ekki neikvæðir. Það er frekar óalgengt í dag að lyfjafyrirtæki séu með lyfjaverksmiðjur í Bandaríkjunum enda er launakostnaður þar hærri en víða annars staðar. Stór hluti allrar lyfjaframleiðslu heimsins fer fram utan landsins. Við erum samtals með 17 verksmiðjur og meirihluti þeirra er í Bandaríkjunum.“
Spurður nánar um áhrif tollanna á lyfjabransann segir Sigurður að menn bíði enn átekta. „Það eru mjög mörg erlend samheitalyf á Bandaríkjamarkaði, t.d. frá indverskum lyfjafyrirtækjum sem framleiða á Indlandi, þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri. Ef tollar yrðu settir á þau lyf yrði það ansi mikið vandamál fyrir þann iðnað.“
Sigurður á langan feril í lyfjageiranum. Hann lærði lyfjafræði við Háskóla Íslands en réð sig svo til lyfjarisans Pfizer í Bretlandi. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 2000 og hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í New Jersey sl. 12 ár.
„Ég flutti heim til Íslands árið 2008 og gerðist forstjóri í gamla Actavis. Ég hef nú stýrt stórum lyfjafyrirtækjum í 17 ár samfleytt. Það var einhver sem benti mér á að eftir 17 ára feril ætti ég að vera búinn að gera öll mistökin í bókinni og ætti því að kunna að forðast þau,“ segir Sigurður og brosir. „Þetta er reynsla sem byggist upp.“
Fyrirtækin sem Sigurður hefur stýrt auk Actavis og Mallinckrodt eru samheitalyfjadeild ísraelska lyfjarisans Teva, samheitalyfjasvið Watson Pharmaceuticals í Bandaríkjunum og breska lyfjafyrirtækið Hikma.
Aðspurður segir Sigurður að höfuðstöðvar Mallinckrodt séu í Dublin á Írlandi. „Ég fer reglulega þangað. Bandarísku höfuðstöðvarnar eru hér í New Jersey. Við höfum enn ekki ákveðið hvar höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis verða.“
Spurður um frekari ytri vöxt sameinaðs fyrirtækis segir Sigurður að allt sé óvíst með það. „En ég held að fyrirtækin fari varlega í skuldsetningu í framtíðinni. Við viljum samt kaupa fleiri lyf til að sölumenn okkar, sem eru rúmlega 400 í Bandaríkjunum, hafi úr meiru að moða á fundum með læknum og heilbrigðisstarfsfólki. Þeir heimsækja mikið ónæmislækna, gigtarlækna, augnlækna og þvagfæralækna.“
Aðspurður segir hann að hægt sé að kaupa lyf á fleiri en einn veg. „Þú getur keypt lyf og einkaleyfi með fullum réttindum. Þú getur einnig keypt réttinn til að selja það í Bandaríkjunum og þú getur fengið endursöluleyfi. Þetta eru þrír möguleikar en fyrsti og annar möguleikinn eru fýsilegastir fyrir okkur. Það eru ýmis evrópsk fyrirtæki sem starfa utan Bandaríkjanna sem hafa unnið að nýþróun á lyfjum sem fara ekki út í að setja upp sölumannakerfi í Bandaríkjunum. Við getum orðið góður samstarfsaðili fyrir þannig fyrirtæki,“ segir Sigurður að lokum.