Áhugaverð breyting mun eiga sér stað hjá Kauphöllinni á morgun, þann 1. apríl, en þá verður nýtt „uppboðslíkan“ (e. auction trading model) kynnt til sögunnar á First North-vaxtarmarkaðinum.
Finnbogi Rafn Jónsson er framkvæmdastjóri viðskipta hjá Nasdaq Iceland og segir hann uppboðslíkanið hugsað fyrir viðskipti með þau félög sem eru með lítinn seljanleika og án svokallaðrar viðskiptavaktar. Til að byrja með verður um þrjú félög að ræða: hugbúnaðarfyrirtækið Klappir Grænar Lausnir, leikjafyrirtækið Solid Clouds og matvöruframleiðandann Sláturfélag Suðurlands.
„Uppboðslíkanið þýðir að viðskiptum með hlutabréf þessara félaga verður beint í þann farveg að í stað þess að vera með samfelld viðskipti yfir allan daginn verða haldin reglubundin uppboð,“ útskýrir Finnbogi. „Eins og gildir með öll önnur félög byrjar viðskiptadagurinn fyrir þessi félög með opnunaruppboði, sem klárast kl. 9.30 og markar hina eiginlegu opnun markaðarins. Því næst fara fram uppboð sem lýkur kl. 11.00, 12.30, 14.00 og lokunaruppboð kl. 15.30.“
Með því að hafa þennan háttinn á standa vonir til að það takist að minnka sveiflur í hlutabréfaverði þessara félaga yfir daginn en Finnbogi segir að Nasdaq hafi innleitt sama fyrirkomulag í Finnlandi og Svíþjóð með góðum árangri, og að uppboðslíkanið verði tekið í gagnið á First North í Danmörku í júlí.
Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja verðbréfaheiminn í þaula, þá á það við um flest íslensk hlutafélög að þau gera samning við fjármálafyrirtæki um að halda úti viðskiptavakt, eins og það er kallað, og er fjármálafyrirtækið þá í hlutverki viðskiptavaka. Slíkir samningar hafa það að markmiði að viðhalda stöðugum seljanleika, og skuldbindur viðskiptavakinn sig til að vera með virk kaup- og sölutilboð inni í tilboðabók Kauphallarinnar á meðan markaðurinn er opinn. Það þykir margt jákvætt við þessa þjónustu en henni fylgir þó einhver viðbótarkostnaður fyrir hið skráða félag og eru, sem fyrr segir, þrjú félög á íslenska markaðinum sem eru án viðskiptavaktar og tiltölulega lítil velta í viðskiptum með hlutabréf þeirra. Finnbogi segir það m.a. geta leitt til þess að mikið verðbil verður stundum á milli kaup- og sölutilboða og er það ekki endilega æskilegt.
Uppboðslíkanið virkar þannig að kaupendur og seljendur geta lagt inn tilboð allt þar til uppboðinu er lokað, sem gerist fimm sinnum yfir daginn. Kerfi Nasdaq sýnir þátttakendum lægsta sölutilboð og hæsta kauptilboð, eða væntanlegt pörunarverð ef kaup og sala mætast, allt þar til uppboðinu lýkur en bæði kaupendur og seljendur geta breytt tilboðum sínum og dregið þau til baka allt fram á síðustu stundu. Eiga viðskiptin sér síðan stað ef pörun hefur orðið á milli tilboða, þ.e. að kauptilboð og sölutilboð mætast eða skarast, á þeirri sekúndu sem hverjum útboðsglugga er lokað. Ef engin pörun verður hafa kaupendur og seljendur annað tækifæri þegar næsta uppboð dagsins fer fram.
Segir Finnbogi að auk þess að minnka verðsveiflur innan dagsins sé þetta fyrirkomulag til þess fallið að bæta seljanleika bréfa hlutafélaganna og gera verðmyndunina heilbrigðari.
Aðspurður segir Finnbogi að ágætis líf sé í íslenska verðbréfamarkaðinum og að sú jákvæða þróun hafi átt sér stað á undanförnum árum að aðgengi almennings að verðbréfaviðskiptum hefur batnað til muna. Er það núna hægur leikur fyrir fólk að kaupa og selja verðbréf í gegnum snjallsímaforrit fjármálafyrirtækja. „Í lok árs 2019 voru kannski í kringum 8.000 manns í landinu öllu sem áttu hlutabréf en núna er sú tala komin upp í 30.000 eða þar um bil,“ útskýrir hann.
Finnbogi segir þessa þróun ekki bara skrifast á snjallsímaforritin heldur hafi sum hlutafjárútboð og skráningar vakið mikla athygli meðal almennings og dregið fleira fólk að markaðinum. Nefnir hann sérstaklega útboð Icelandair árið 2020 en greinendur bentu á það á þeim tíma að þátttaka almennings hefði átt stóran þátt í hve vel útboðið heppnaðist.
Eðli málsins samkvæmt eru stök viðskipti einstaklinga á markaðinum mun smærri í sniðum en hjá fagfjárfestunum en Finnbogi segir að margt smátt geri eitt stórt og sem ein heild geti almenningur haft töluverð áhrif á seljanleika og verðmyndun á markaðinum og tekur hann undir að þessi nýi hópur kaupenda og seljenda skapi ákveðna ballest sem geri markaðinum gott.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 31. mars.