Gervigreindarfélagið xAI, sem Elon Musk stofnaði árið 2023, hefur fest kaup á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) og greiðir 45 milljarða dala fyrir. Eins og fjölmiðlar greindu frá á sínum tíma eignaðist Musk Twitter haustið 2022 og nam kaupverðið 44 milljörðum dala. Í framhaldinu breytti hann nafni samfélagsmiðilsins í X.
Kaupin fara þannig fram að xAI greiðir fyrir X með hlutabréfum og tekur yfir 12 milljarða dala skuldir samfélagsmiðilsins en samkvæmt kaupsamningnum er xAI metið á 80 milljarða dala. Síðasta fjármögnunarlota xAI fór
fram seint á síðasta ári og fékk félagið þá 5 milljarða dala innspýtingu en var metið á 45 milljarða.
Musk lét hafa eftir sér um kaupin að framtíð xAI og X væri samfléttuð og að nú yrði hægt að samnýta mannauð, gögn og tækjakost félaganna beggja og xAI nyti góðs af risastórum notendahópi X: „Þetta mun gera okkur kleift að smíða tækni sem ekki bara endurspeglar heiminn eins og hann er heldur á virkan þátt í að láta framfarir mannkyns gerast hraðar.“
Að sögn Musk eru virkir notendur X í dag um 600 milljón talsins og voru gögn samfélagsmiðilsins notuð til að þjálfa gervigreindina Grok sem þykir nú ein sú snjallasta sem finna má. ai@mbl.is
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 31. mars.