Eitt af fyrstu verkum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta þegar hann tók við embætti í janúar var að undirrita forsetatilskipanir sem lögðu blátt bann við öllum tilvísunum í fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu (e. Diversity, equity and inclusion) eða svonefndar DEI reglur – hjá alríkisstofnunum og fyrirtækjum.
Financial Times (FT) tók saman gögn frá 400 efstu fyrirtækjum í S&P-vísitölunni sem hafa skilað inn ársreikningum síðan Trump tók við embætti og þar hafa 90% þeirra ýmist skorið verulega niður eða fjarlægt tilvísanir sem uppfylltu kröfur DEI um fjölbreytileika í sínum ársreikningum.
Mörg þeirra hafa jafnframt hætt að halda tölfræði sem sýnir sundurliðun á vinnuafli, m.a. eftir kynþætti, eða látið ógert að nefna að hafa hlotið einhverja viðurkenningu fyrir að uppfylla kröfur DEI.
Stefnubreytingin þykir einnig sjást í breyttu orðalagi um fjölbreytileika í ársreikningum milli 2024 og 2025 hjá stórfyrirtækjum á borð við Mastercard, Sales Force, S&P Global og American Express. FT óskaði eftir viðbrögðum frá þessum fyrirtækjunum sem öll neituðu að tjá sig nema Sales Force sem kvaðst áfram skuldbinda sig við grunngildi jafnréttis.
Bandarískum fyrirtækjum og stofnunum mun vera nokkur vandi á höndum að framfylgja illa skilgreindu banni Trumps og verða þau að meta það sjálf fyrir sitt leyti. FT nefnir dæmi um slíkt þegar Deloitte skipaði starfsfólki sínu að fjarlægja kyngreind fornöfn úr undirskriftum tölvupósta, í þeirri von að framfylgja banninu. arir@mbl.is