Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í lok janúar lagði Skúli Þór Helgason stjórnarmaður OR fram tillögu og bókun er varðar raforkusamninga við stórnotendur. Skúli bendir þar á að á næstu þremur árum renni út raforkusölusamningar við stórnotendur um ríflega 215 MW af orku sem svarar til 82% af samningsbundnu orkumagni sem tengt er við álverð.
Haft er eftir Skúla í fundargerð félagsins:
„Ljóst er að umræddir samningar við stóriðjufyrirtæki voru á sínum tíma gerðir langt undir núverandi markaðsvirði og eru því miklir hagsmunir í því fólgnir að semja um markaðsverð við endurskoðun umræddra samninga á næstu misserum. Sá ávinningur gæti numið milljörðum króna árlega fyrir Orkuveituna þegar nýir raforkusölusamningar hafa tekið gildi.“
Hefur Skúli óskað eftir því og var það samþykkt að framkvæmdastjóri ON/ON Power skili minnisblaði þar sem útlistað verði hvaða áhrif það hefði á afkomu fyrirtækisins og þar með samstæðu OR ef orka sem er nú bundin í samningum við Norðurál og aðra stórnotendur yrði seld á markaðsverði.
Morgunblaðið leitaði til Skúla sem lagði áherslu á að margfaldur ávinningur væri af endurskoðun samninganna við Norðurál.
„Þar vegi auðvitað þungt fjárhagslegu hagsmunirnir sem því fylgi að semja um markaðsverð á orku sem seld hefur verið á lægra verði undanfarna áratugi. Ávinningurinn gæti numið milljörðum króna á hverju ári, til hagsbóta fyrir samfélagið bæði í borginni og hjá öðrum þeim sveitarfélögum sem mynda eigendahóp Orkuveitunnar. En það eru líka tækifæri fólgin í því að hluti þeirrar orku sem bundin hefur verið í samninga við Norðurál verði til úthlutunar fyrir nýja kaupendur. Þar er ég að leggja til að horft verði til þess hversu vel viðkomandi atvinnustarfsemi fellur að áherslum Orkuveitunnar um sjálfbærni og styðji við markmið fyrirtækisins og stjórnvalda í loftslagsmálum. Þess vegna lagði ég til að ON myndi móta sjálfbærniviðmið sem yrði horft til í samningum komandi ára við nýja kaupendur. Þarna gefst dýrmætt tækifæri til að sýna í verki að Orkuveitan hafi metnað til að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar eins og segir í nýrri og framsækinni stefnu Orkuveitunnar. Þessi vinna við mótun sjálfbærniviðmiða Orku náttúrunnar stendur yfir og miðar vel miðað við mínar upplýsingar.“
Morgunblaðið leitaði jafnframt til Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur stjórnarmanns OR, sem sat umræddan fund:
„Þarna greinir okkur Skúla eilítið á. Það er algengt að menn falli í þá freistni að vilja græða sem mest á raforkusölu til stóriðjunnar eða annarra atvinnugreina sem ganga ágætlega en svona samningagerðir mega ekki byggjast á skammtímasjónarmiðum og tækifærismennsku. Ástæða þess að það gengur ágætlega hjá þessum atvinnugreinum er sú að menn gættu þess að fyrirtækin hefðu fjárhagslegt svigrúm til að vaxa og dafna. Samningarnir þurfa að byggjast á langtímahagsmunum beggja. Báðir aðilar þurfa að horfa til lengri tíma, þannig að það sé verið að skapa sem mest verðmæti fyrir Orkuveituna, viðskiptavinina og samfélagið.“
Ragnhildur bætir við:
„Áliðnaðurinn hefur gegnt lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi. Af honum hafa sprottið mörg þúsund störf víða um land og hann hefur reynst bæði ríkissjóði og sveitarfélögum drjúg tekjulind. Samkeppnishæft raforkuverð gerir íslenskum álverum kleift að keppa á alþjóðamarkaði. Bæði áliðnaðurinn og Orkuveitan hafa hagnast á þessum samningum því með þeim skapaðist tækifæri til uppbyggingar í áliðnaðinum og orkuiðnaðinum sem annars hefði ekki verið.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.